Uppþembd eftir bakflæðisaðgerð?

Spurning:
Sæl/sæll! Í maí 2002 fór ég í aðgerð vegna vélindabakflæðis. Ég hafði þá þjáðst í ansi mörg ár, verið á LOSEC af þvi ég vildi í raun ekki aðgerð. Eftir á finnst mér lífið dásamlegt, get borðað allt, sofið með engan kodda, fengið mér rauðvínsglas með matnum o.s.frv….en en… en ekki er allt svo gott að ekki boði nokkuð illt… ég er nefnilega stanslaust uppþembd. Alltaf full af lofti. Dálítið hvimleitt og ég vissi af þessum fylgikvilla en ekki að hann gæti verið svona lengi. Er þetta eðlilegt eftir svo langan tíma?
Annað atriði er að ég get ekki drukkið gos, sem er svo sem allt í lagi en ég fæ hiksta um leið og á erfitt að kingja, hefur þetta eitthvað með loftmyndunina að gera? Ég get drukkið bjór en finn þó fyrir honum, en finn ekkert fyrir kaffi, rauðvíni eða nokkru slíku, sem áður voru þvílíkt vandamál. Þetta finnst mér ansi furðulegt. Ég veit ekki hvort það skiptir máli en ég þoli Fresca og sódavatn betur en kók. Öðru hverju þegar ég er orðin mjög svöng og borða hraðar, eins og t.d. brauð þá á það til að standa létt í mér, eða allavega þarf ég að ræskja mig nokkrum sinnum áður en það rennur niður. Ég er búin að velta þessu lengi fyrir mér en einhvern veginn finnst kjánalegt að fara til læknis því ég er alheilbrigð og líður svo miklu betur en fyrir aðgerðina. Staðreyndir (ef þær skipta máli) 39 ára, stunda heilsurækt 2-3 í viku, vinn skrifstofuvinnu, ca. 5 kg of þung. Með von um góðar viðtökur.

Svar:
Sæl

Einkennin (uppþemba og kyngingartregða) sem þú lýsir eru einn algengasti fylgikvilli bakflæðisaðgerðar. Uppþemban (gas-bloat syndrome, á fínu máli) er ansi hvimleitt vandamál og stafar líklega af loftsöfnun í maganum sem fyrir aðgerð losnaði um er fólk ropaði, en eftir aðgerðina er erfiðara að ropa og losna við loftið. Allir drykkir sem innihalda gos auka á loftsöfnun og best er að reyna að forðast þá drykki, þó góðir séu. Þetta vandamál lagast þó hjá mörgum og oft getur það tekið marga mánuði, svo þú verður bara að halda í vonina. Þú getur prófað lyf sem draga úr loftmyndun í þörmum s.s. Minifom, þau lyf fást án lyfseðils. Hiksti getur komið ef maginn þenst skyndilega út vegna ertingar á þindartaugarnar. Kyngingarvandamál er annar algengur aukakvilli bakflæðisaðgerðar og er hann einkum fyrst eftir aðgerðina en lagast oftast með tímanum. Það borgar sig að tyggja vel og borða lítið í einu og ekki hratt og drekka vel (vatn) með matnum, sérstaklega ef borðað er brauð, kjöt og hrátt grænmeti. Ekkert af þeim einkennum sem þú lýsir eru hættuleg en eru bagaleg. Stundum eru þau svo slæm að sumir þurfa að fara aftur í aðgerð og láta losa um magaopið. Ef þú ert ekki sátt, þá endilega talaðu við skurðlækninn sem gerði aðgerðina á þér.

Gangi þér vel

Sigurbjörn Birgisson, læknir
Sérfræðingur í meltingarsjúkdómum