Uppköst á meðgöngu og rauðir flekkir?

Spurning:
Hæ, hæ.
Þannig er mál með vexti að ég er ófrísk, komin um 17 vikur á leið og hef verið að kasta upp vegna ógleði, en sem betur fer er það farið að minnka helling núna. En spurning mín er þessi: í gær lenti ég í því að kasta upp og það fylgdi því svolítil áreynsla. Stuttu seinna leit ég í spegilinn og sá rauða flekki út um allt andlit, svolítið eins og háræðaslit. Er þetta einhvað sem ég þarf að hafa áhyggjur af og jafnar þetta sig ekki bara að sjálfu sér? Vonandi getið þið svarað mér.
Takk fyrir

Svar:
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
Fyrirgefðu hvað svarið berst seint til þín. En það er mjög líklegt að þetta séu eins og þú segir háræðaslit af völdum þrýstingsins sem kemur þegar þú kastar upp. Ég myndi samt ráðleggja þér að tala við ljósmóðurina þína og láta kíkja á þig.  Ég vona að þér fari að líða betur og getir notið betur meðgöngunnar hér eftir.  Gangi þér vel,

Bestu kveðjur,
Ásthildur Gestsdóttir ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur