Upplýsingar um laseraðgerðir á augum

Spurning:

Sæll.

Mig langar að spyrjast fyrir um laseraðgerðir á augum. Hvar er hægt að gera slíkar aðgerðir og hvað kosta þær? Maðurinn minn er mjög nærsýnn, hann er með -8,5 á hægra auga og -6 á vinstra auga. Svo er hann líka með eitthvað sem heitir „astigmatism". Hornhimnurnar eru ekki eins og þær eiga að vera, en ég get ekki alveg útskýrt þetta rétt. Hann er sænskur, en er með lögheimili hér á Íslandi.

Taka tryggingarnar á einhvern hátt þátt í svona aðgerðum?
Ég veit ekki hvort það starfa einhverjir augnlæknar sem ráðgjafar hjá ykkur, en ef ekki, getið þið þá bent mér á hvert ég get leitað?

Svar:

Sæll.

Laseraðgerðir á augum til að laga sjónlagsgalla eiga sér fremur stutta sögu, en aðeins 10 ár eru síðan farið var að framkvæma þær. Sjónlagsgallar kallast einu nafni nærsýni, fjarsýni og sjónskekkja (eða astigmatism). Laseraðgerðir geta gert við flesta sjónlagsgalla, en þó þarf nákvæma skoðun til að kanna hvort viðkomandi sé heppilegur í aðgerðina, meðal annars þykktarmæling á hornhimnu og nákvæm skoðun á kúpu hornhimnunnar. Tryggingarstofnun Ríkisins tekur að jafnaði ekki þátt í kostnaðinum, sem getur numið allt að 285.000 kr. Þér er velkomið að panta tíma í forskoðun hjá okkur í Sjónlagi hf., sem er staðsett í Spönginni 39, Grafarvogi, þar sem við gerum slíkar aðgerðir. Síminn er 577 1001.

Nánari upplýsingar um sjónlagsaðgerðir er að finna á vefsíðunni www.sjonlag.is og www.lasik.is

Bestu kveðjur og gangi ykkur vel,
Jóhannes Kári Kristinsson, augnlæknir Sjónlag hf.