Upplýsingar um lithimnubólgu

Spurning:

Sæll.

Ég var að leita að upplýsingum um lithimnubólgu en fann ekkert. Þætti vænt um að fá einhverjar upplýsingar.

Svar:

Sæl.

Lithimnubólga kallast „uveitis“ eða „iritis“ á erlendum málum. Eins og nafnið bendir til er þarna um að ræða bólgu í lithimnu augans, en hún er staðsett fyrir aftan glæra hornhimnukúpulinn á auganu og fyrir framan augasteininn. Lithimna kallast hún vegna þess að hún er mismunandi á litinn eftir einstaklingum, brún í sumum, blá í öðrum og mig minnir að Bob Moran hafi verið með stálgrá augu! Bólga í lithimnu er ekki algeng, en getur verið alvarleg ef hún er ekki meðhöndluð fljótt og vel. Lithimnubólga lýsir sér einkum þannig að annað augað verður rautt, fólk á mjög erfitt með að horfa í ljós (ljósfælið), sjónin minnkar oft á auganu og viðkomandi getur fengið verulegan verk í augað. Á seinni stigum má stundum sjá hvítt efni fyrir framan lithimnuna og sjáaldrið getur orðið óreglulegt í lögun. Oft er ekki að finna neina orsök fyrir lithimnubólgu, en í sumum tilfellum getur hún fylgt ýmsum gigtarsjúkdómum, nokkrum meltingarfærasjúkdómum og fleiri sjaldgæfari sjúkdómum, svo sem sjálfsofnæmissjúkdómum Lithimnubólga getur líka komið eftir alvarlegt högg á augað. Eins og áður sagði er mikilvægt að meðhöndla lithimnubólgu fljótt og vel áður en varanlegur sjónskaði hlýst af. Helstu afleiðingar ómeðhöndlaðrar lithimnubólgu eru hækkaður þrýstingur, himna fyrir sjáaldri, sjóntaugarrýrnun og, í sumum tilvikum, sjónskerðing og jafnvel blinda. Í sumum tilvikum getur litur augans breyst og e.t.v. hefur David Bowie fengið lithimnubólgu í bláa auganu sínu í árdaga – hver veit?

Ef grunur leikur á lithimnubólgu þarf að hafa samband við augnlækni þegar í stað. Oftast er hægt að lækna lithimnubólgu fljótt og vel með bólgueyðandi og sjáaldursútvíkkandi dropum. Við þá meðferð snýr augað yfirleitt í sitt fyrra horf. Eftir fyrsta lithimnubólgukast er augað í nokkurri hættu á að fá annað kast, þannig að mikilvægt er að einstaklingur sem hefur eitt kast að baki fari sem skjótast til augnlæknis ef einkenni taka að kræla á sér að nýju.

Vona að þetta svari spurningu þinni – þú getur fengið gnægð viðbótarefnis á vefnum með því að leita að lykilorðunum „uveitis“ og „iritis“.

Bestu kveðjur,
Jóhannes Kári Kristinsson, augnlæknir Sjónlag hf.