Spurning:
Sæl.
Mig langar að vita hvar hægt er að nálgast almennar upplýsingar (gjarnan á netinu) um það hvaða matvæli er óæskilegt að neyta fyrir mig sem er 36 ára, nokkuð yfir kjörþyngd og með of hátt kólesteról. Ég tel mig ekki neyta sérlega óhollrar fæðu og ekkert í óhófi, það er helst að kaffidrykkjan sé dálítið mikil en ég reyki ekki og hef aldrei gert. Hefur kaffi og te einhverja þýðingu í þessum málum.
Kveðja.
Svar:
Sæll.
Þau matvæli sem öðru fremur þarf að varast ef kólesterólið mælist í hærra lagi eru þau sem innihalda mikið af mettaðri eða harðri fitu. Mettaða fitan hækkar kólesterólið í blóðinu, en ómettuð fita, sem oftast er fljótandi eða mjúk, hefur ekki slík áhrif. Magn af mettaðri fitu er gefið upp í íslenska gagnagrunninum um efnainnihald matvæla og er hægt að nálgast hann á heimasíðu Manneldisráðs www.manneldi.is. Þar er einnig hægt að tengjast reikniforriti sem reiknar magn næringarefna bæði í uppskriftum um í máltíðum eða dagsfæði. Forritið er vistað á vefsíðunni www.matarvefurinn.is. Almennt má segja að mettaða fitu sé að finna í feitum mjólkurvörum, feitu kjöti, smjöri, steikingasmjörlíki og alls kyns kökum, kexi, súkkulaði og sætabrauði. Þetta eru því matvörurnar sem helst þarf að varast. Þess í stað er um að gera að borða meira af mögrum eða léttum mjólkurvörum, grófu brauði sem er lítið smurt, fiski, bæði feitum fiski og mögrum, og fitulitlu kjöti. Borða líka meira af grænmeti, ávöxtum, hrísgrjónum, kartöflum eða pasta og velja fituminni sósur. Í matreiðslubókinni „Af bestu lyst”, sem Hjartavernd, Krabbameinsfélagið og Manneldisráð stóðu að, eru fjölmargar uppskriftir að sósum og réttum sem innihalda litla mettaða fitu. Olía er þar frekar notuð til matreiðslu í staðinn fyrir smjörlíki eða smjör, enda er olían mjúk fita sem hækkar ekki kólesterólið. Hins vegar þarf að fara varlega með notkun olíunnar, því hún er ekki síður fitandi en smjör eða smjörlíki. Hvað varðar kaffi og te, þá getur mikil kaffidrykkja hækkað kólesterólið. Það er því betra að takmarka kaffið við einn eða tvo bolla á dag og velja annars te eða vatn. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Manneldisráðs www.manneldi.is. Þar er m.a. bæklingurinn „Ef kólesterólið mælist of hátt” og eins ábendingar fyrir þá sem vilja grennast.
Kveðja,
Laufey Steingrímsdóttir, næringafræðingur.
Laufey er forstöðumaður Manneldisráðs og situr í stjórn Hjartaverndar.