Upplýsingar um mjólkursykuróþol

Spurning:

Sæl Ingibjörg.

Mig vantar upplýsingar um mjólkursykuróþol. Ég bý með vinkonu minni um þessar mundir og hún er með mjólkursykuróþol. Þetta er frekar slæmt tilfelli skilst mér og hún getur fengið mjög slæm einkenni, niðurgang, ristilkrampa og fleira óskemmtilegt ef hún passar sig ekki.

Það sem ég var að spá í er það hvaða mjólkurvörur innihalda EKKI mjólkursykur eða mjólkursykur í mjög litlu magni? Einnig óska ég eftir almennum ráðleggingum varðandi mataræði þeirra sem eru mjólkursykuróþol.

Kær kveðja.

Svar:

Meðferð við mjólkursykuróþoli er mjög einstaklingsbundið þar sem mjög misjafnt er hve mikið magn einstaklingar þola í hverri máltíð og verður því hver og einn að prófa sig áfram. Einkennin sem koma fram eru einungis óþægileg en ekki hættuleg einstaklingum. Í þessu tilfelli sýnist mér einkennin vera ansi óþægileg. Flestir sem hafa mjólkursykuróþol þola sem samsvarar 1/2-1 glasi af mjólk með hverri af þremur aðalmáltíðum dagsins og jafnvel upp í 1 1/2 glas. Það er mikilvægt að dreifa mjólkur- eða mjólkurafurðaneyslunni yfir daginn. Þeir sem eru með mjólkursykuróþol ættu alls ekki að sleppa því alveg að neyta mjólkurvara þar sem þær eru mikilvæg uppspretta næringarefna (sér í lagi kalks). Flestum nægir að draga einungis úr neyslu mjólkur (nýmjólk, léttmjólk, fjörmjólk og undanrennu) við máltíðir. Nánast engan mjólkursykur er að finna í föstum osti þar sem gerlar eyða sykrinum við framleiðsluna. Sýrðar mjólkurafurðir innihalda einnig minni mjólkursykur af sömu ástæðu og sé gerlakúltúrinn virkur (hann er það ekki ef varan hefur verið fryst) getur hann að einhverju leyti brotið niður mjólkursykurinn í afurðinni í þörmunum eftir neyslu. Það litla magn af mjólkursykri sem er að finna í smjöri og smjörlíki, brauði, súpum, sósum og unnum kjötvörum gerir það að verkum að þessara afurða geta þeir sem eru með mjólkursykuróþol yfirleitt neytt. Magn sem hægt er að neyta fer eftir styrk mjólkursykurs í afurðinni og næmi einstaklingsins fyrir sykrinum. Mjólk getur oft verið að finna í tilbúnum réttum svo sem jafningum og grautum sem soðnir eru úr mjólk. Tilbúin kartöflumús, tilbúnir kjöt- og fiskréttir, berja- og ávaxtaréttir ýmiss konar geta oft innihaldið mjólk. Vöfflur og pönnukökur og ýmsir eggjaréttir innihalda líka oft heilmikla mjólk. Þegar matvæli eru merkt er skylda að merkja þau eftir minnkandi magni í innihaldslýsingu og má oft gera sér grein fyrir því þannig hve mikil mjólk er í vörunni.

Bestu kveðjur,
Ingibjörg Gunnarsdóttir, matvæla- og næringarfræðingur