Upplýsingar um nikótín

Spurning:
Spurning mín er um nikótínlyfjanotkun og áhrif nikótíns á heilann og miðtaugakerfið. Í öllum hinum fjölmörgu lesningum sem víða má finna og varða nikótín er einblínt á reykingar og skaða af þeim. Minn vandi er hins vegar sá að ég hef notað nikótínlyf (tyggigúmmí 4 mg) í allmörg ár. Ég nota þetta mjög mikið – jafnvel 2-3 stk. í einu. Maður virðist talsvert háður þessu. Ég veit það ekki með vissu en hef grun um að þetta valdi vanlíðan sem ég finn fyrir. T.d. auki á kvíða og spennu, trufli einbeitingu og minni og hafi víðtæk áhrif á andlegt ástand. Ég tel mig fá skjálfta líka af þessu stundum. Líkamleg einkenni eru lítil. Þó segja sumir að efnið nikótín eitt og sér örvi heilann og sé alls ekki svo slæmt. Ég sakna þess að finna hvergi lesningu sem fjallar beinlínis um áhrif þau sem nikótín (alveg burt séð frá reykingum) getur haft á mann, og mér gengur mjög illa að tempra nikótínlyfjanotkunina. Stundum flýgur manni í hug að maður sé e.t.v. að gera úlfalda úr mýflugu varðandi framangreindar spekúlasjónir vegna þess að aldrei er fjallað um áhrif efnisins nikótíns að ráði heldur aðra þætti sem snerta notkun efnisins í formi tóbaks. Mér þætti vænt um upplýsingar og ráð varðandi ofangreint.

Virðingarfyllst,

Svar:

Nikótín er mjög ávanabindandi efni, en þar sem mun fleiri hættuleg efni eru í sígarettureyk er það talið mun skárra að nota nikótínlyf í stað þess að nota tóbak. En það er ekki gert ráð fyrir að fólk noti nikótínlyf lengur en  nokkra mánuði. Þó er talsvert algengt að fólk verði það háð nikótínlyfjum að það noti það í lengri tíma. Einnig er talsvert algengt að fólk noti nikótíntyggjó á rangan hátt, þ.e. tyggi það eins og tyggjó, en þá fer nikótínið með munnvatninu niður í maga þar sem það nýtist ekki heldur veldur bara magaóþægindum. Skoða þarf vel leiðbeiningarnar hvernig nota á nikótínlyfin.

 

Varðandi aukaverkanirnar þá getur það vel verið að nikótínið valdi vanlíðan sem þú finnur fyrir, s.s. kvíða, spennu og skjálfta. Aukaverkanir nikótíns er m.a. svimi, höfðuverkur, verkir í liðum og vöðvum, meltingartruflanir, svefntruflanir, óþægilegir draumar, depurð, óþægilegur hjárstláttur og hjartsláttartruflanir.

 

Þar sem þú notar talsvert mikið magn af nikótíntyggjói, myndi ég ráðleggja þér að brjóta upp mynstrið og nota nikótínplástur sem grunnmeðferð. Síðan þarftu að takmarka þig með tyggjóið. Ef þú treystir þér til væri gott að fara að nota 2 mg tyggjó (og þá bara eitt í einu), en ef þér finnst það of stórt stökk, getur þú farið niður í bara eitt 4 mg tyggjó. Notaðu þetta svona í ca 3 vikur og reyndu að venja þig á að nota eitthvað annað í staðinn fyrir tyggjó, t.d. fá þér ávöxt, ópal eða bara venjulegt tyggjó. Síðan getur þú farið að minnka um eitt tyggjó hverja viku. Þegar þú ert farinn að nota bara einstaka tyggjó, skaltu fá þér hálft tyggjó í senn. Þú getur notað venjulegt tyggjó með ef þér finnst það of lítið. Þegar þú ert hættur að nota tyggjó, getur þú farið að huga að því að hætta að nota plásturinn, eftir ca. 2 – 3 vikur. Minnkaðu þó fyrst niður í veikari gerð. Gott ráð er að búa þér til plan með dagsetningum sem þú getur farið eftir svo þú náir að trappa þig niður á skipulegan hátt.

 

Eins getur þú haft gagn af Zybanmeðferð við níkótínfíkninni. Zyban er nikótínlaust sem hefur hjálpað mörgum. Lyfið dregur úr fráhvarfseinkennum og löngun í nikótín. En lyfið er lyfseðilsskylt og þarft þú þá að hafa samband við þinn lækni.

 

Ég bendi þér eindregið á að hafa samband við okkur hjá reyksímanum “Ráðgjöf í reykbindindi – 8006030” og fá hjá okkur frekari leiðbeiningar og stuðning, þar sem niðurtröppun nikótínlyfja er einstaklingsbundin.   

 

Gangi þér vel!

 

Guðrún Árný Guðmundsdóttir

 

Hjúkrunarfræðingur og ráðgjafi í “Ráðgjöf í reykbindindi – 8006030”