Útbrot á hálsi?

Spurning:
Komið þið sæl. Ég hef verið á þunglindislifinu cipramil eða oropram og fyrir ca 4 dögum byrjaði ég að fá rauð útbro á hálsinn og kláða á bakinu síðan er ég mjög oft geispandi og þreitt en að öðru leiti virkar það mjög vel á mig ég tek 60 mg á dag vegna fælni en ég hef áhyggjur af þessum flekkjum á hálsinum þeir eru aðalega aftan á er þetta hættulegt hvað get ég gert ? geta unglingar farið á þessi lyf ef þeir þjást af fælni? hef verið með fælni og kvíða síðan ég var unglingur og ég á að vera á þessum lifjum í 2 ár verð ég þá alltaf svona eða lagast þetta ? Kveðja .

Svar:
Útbrot og kláði gætu stafað af ofnæmi fyrir virka efninu í lyfinu eða einhverju öðru innihaldsefni þess. Ef um ofnæmi er að ræða, gætir þú þurft að hætta að nota lyfið. Þetta gæti þó gengið yfir. Einnig er möguleiki að þú fáir útbrot af Oropram en ekki Cipramil eða öfugt. Í öllu falli ráðlegg ég þér eindregið að tala við lækninn og fá ráð hjá honum. Þreyta og syfja gæti verið aukaverkun af lyfinu. Venjulega ganga þannig aukaverkanir yfir á nokkrum vikum. Lyfið er ekki ætlað börnum eða unglingum þar sem, ekki eru fyrirliggjandi fullnægjandi rannsóknir fyrir þennan aldurshóp.

 

Finnbogi Rútur Hálfdanarson

lyfjafræðingur