Útbrot í augnhvarmi?

Spurning:
Ég var að leita eftir einhverju sem gæti passað við útlit sonar míns sem er 9 ára. Hann er með útbrot á augnhvarmi sem líkjast helst frunsu. Ég fór með hann til læknis í gær sem sagði að þetta gætu verið ofnæmisútbrot en eru þau ekki venjulega roði og flekkir? Vegna staðsetningar útbrotanna er mér ekki rótt, en ef þau væru annars staðar en svona nálægt augum myndi ég bíða róleg og sjá til hvernig málin þróast. Mér finnst lýsing á kossageit komast næst því sem ég fann á netinu en þar sem ekkert barna minna hefur fengið hana veit ég ekki hvernig þau útbrot líta út

Svar:
Þú þyrftir að leita augnlæknis sem fyrst til að greina þetta. Nokkrar líkur eru nefnilega á að þú hafir greint þetta sjálf, þ.e. að þarna sé um að ræða herpessýkingu í augnhvarmi, en það er einmitt sama veiran og veldur frunsu í vör. Þetta er ekki óalgeng birtingarmynd herpes simplex veirunnar og þarf að útiloka sýkingu í auganu sjálfu sem getur einstaka sinnum verið fylgifiskur slíkrar sýkingar.

Gangi þér vel og bestu kveðjur,
Jóhannes Kári