Úthreinsun eftir fæðingu

Fyrirspurn:

Góðan daginn

Ég átti barn fyrir fjórum vikum og er að spá í úthreinsunina. Fæðingin gekk vel en ljósan sagði að það hefði örlítið brot úr fylgjunni orðið eftir, eitthvað sem þyrfti ekki að hafa áhyggjur af. Fyrstu tvær vikurnar var ég stöðugt með bindi en svo hafa komið svona tveggja til þriggja daga frí en svo kemur allt í einu gusan af fersku blóði, finnst eins og ég sé að pissa á mig því ég finn það bara renna niður. Er þetta eðlilegt? Hvenær má ég búast við að þetta hætti?

Þetta er ekki mikið magn en þetta er frekar óþægilegt því þetta er nóg til að bleyta vel í nærbuxunum og lita þær buxur sem maður er í þá stundina.

 

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

 

Úthreinsunin stendur oft í 4-6 vikur, og þegar líður á geta komið svona „gusur“ og á meðan þetta er ekki meira magn og hættir á milli þá myndi ég ætla að þetta væri eðlilegt.  Annars verður úthreinsunin ljósari og ljósari og meira eins og útferð, kannski brúnleit og svo meira glær.  Einnig er mikilvægt að vera vakandi ef útferðin fer að lykta illa – hún hefur sérstaka lykt en ef hún versnar þarf að láta kíkja á sig.  En ef það heldur áfram að koma svona ferskt blóð og ef það eykst þarftu að láta kíkja á þig í ljósi þess sem ljósmóðirin sagði um fylgjuna.

 

 

Gangi þér vel

 

 

Kristín Svala Jónsdóttir

 

Ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur