Spurning:
Ég er 24 ára kona og á við miklar sventruflanir að stríða. Ég vakna upp að meðaltali 4-5 sinnum í viku með öran hjartslátt og með svitaperlur. Stundum sé ég fólk inni í íbúðinni, stundum vakna ég æpandi og það kemur mjög oft fyrir að ég tala upp úr svefni og vek þannig maka minn. Erfiðast finnst mér að sofna þegar ég er ein (maki minn vinnur vaktavinnu þ.á.m. næturvaktir). Ég finn fyrir miklu öryggisleysi og er lengi að sofna og vakna sífellt upp við einhver ímynduð fyrirbæri. Ég reyndi einu sinni að taka jurtasvefnpillur, Drogen´s Baldrian-B+, en þær virkuðu ekkert. Enda veit ég að ein aðalorsök svefnleysis eru svefnpillur! Þannig að þær eru ekki svarið. Ég vil gjarnan fá einhver ráð við þessu og einnig hvort ég ætti að leita til læknis og þá hvaða læknis?
Svar:
Sæl og blessuð!
Þú lýsir svefntruflunum sem angistarfullum uppvöknunum að nóttu til þar sem þú sérð jafnvel ofsjónir. Þetta hlýtur að vera mjög óþægileg upplifun og ekki skrítið að þú skulir vera hrædd við að sofna og eiga von á þessu.
Skýringin á þessum svefntruflunum er að þú vaknar beint upp úr draumsvefni eða djúpum hvíldarsvefni, en yfirleitt verður uppvöknun úr grunnum hvíldarsvefni. Verði uppvöknun úr þessum stigum svefns koma einkenni eins og þú lýsir í bréfi þínu.
Uppvöknun úr djúpsvefni hafa verið kallaðar andfælur. Þá sest viðkomandi oft upp í rúminu, er með opin augu, öran hjartslátt og svitinn bogar af honum. Oftast er erfitt að ná sambandi við fólk í þessu ástandi, en það getur æpt og barið frá sér. Yfirleitt man viðkomandi ekki eftir atburðum næturinnar þegar hann vaknar, en aðstandendur sem upplifa atburðinn eru oft felmtri slegnir.
Ef ég hef skilið rétt þá virðist mér þú vakna og vera hrædd. Því er líklegra að þú sért að vakna beint úr draumsvefni. Ef uppvöknun verður beint úr draumsvefni man viðkomandi oft drauma sína, sem iðulega eru martraðir. Hræðslutilfinning, sviti og hjartsláttur fylgir þessu ástandi. Ofsjónirnar eru án efa svefnrofaofskynjanir sem tengjast gjarnan uppvöknun úr draumsvefni. Ofsjónum er iðulega lýst sem að mannveru sem stendur við rúm eða í gættinni. Svefnrofaofskynjunum geta fylgt svefnrofalömun, ofheyrnir eða köfnunartilfinning. Sjá svefnrofalömun. Þessar upplifanir geta valdið mikilli hræðslu og geymast í minni þess sem fyrir þeim verður árum saman.
Þessi einkenni eru yfirleitt verri ef óregla er á svefntímum eða ef viðkomandi er þreyttur eða undir álagi. Einnig getur maður lent í vítahring líkt og þú lýsir að þú sért orðin hrædd að fara að sofa sem auka enn á vandann.
Nú veit ég ekki um heilsufar þitt, hvort þú notar einhver lyf að staðaldri eða hvort þú hefur notað vímuefni. Ýmis lyf geta valdið uppvöknunum úr draumsvefni t.d. háþrýstingslyf, sefjandi lyf, þunglyndislyf, bólgueyðandi lyf og sumar gerðir sýklalyfja. Einnig gæti þetta ástand tengst andlegu áfalli sem þú hefðir orðið fyrir. Neysla áfengis og vímuefna getur valdið svona svefntruflunum. Til að greina og meðhöndla svefntruflanir þínar er best að leita til heimilislæknis sem gæti þá athugað líkamlega og andlega heilsu og leiðbeint þér með lyf, ef þú tekur einhver. Ef þú ert hraust og lyfjalaus væri ráðlegt að leita ráða hjá sálfræðingi sem gæti hjálpað þér að takast á við þennan vanda. Til eru sálfræðingar sem hafa sérhæft sig í meðferð svefntruflana.
Bryndís Benediktsdóttir, sérfræðingur í heimilislækningum, sérsvið svefnrannsóknir