Góðan daginn, ég er hálf vandræðalegum málum og vona einlæglega að þið séuð með sérfræðinga í viðrekstrarfræðum á ykkar snærum. Málið er að ég er í ofboðslegum vandræðum með vindgang og prumpa bara algjörlega stanslaust. Þetta eru ekki neinir smá pústrar eða hljóðlausir puffarar, heldur langir tónmiklir viðrekstrar sem virðast aldrei ætla að taka endi. Í ofanálag, til að gera þetta verra, þá missi ég mig alltaf í stjórnlausan hlátur þegar þetta gerist innan um fólk, sem gerist sjálfkrafa og án þess að ég ætli það. Það fylgir þessu sterkur og nístandi óþefur, sem er bara eins og ég sé skúnkur í aðra ættina.
Ég reyni oft í vinnunni að lauma út einum og einum svo lítið beri á, en þetta fer næstum alltaf í tóma vitleysu því um leið og ég byrja og heyri tóninn fer ég að hlæja upphátt, og þá opnast allar gáttir með tilheyrandi vandræðalegheitum og ég umbreytist bara í vindvél sem er ekki hægt að slökkva á. Ég er menntaður bókasafnsfræðingur og ekki beint læti á vinnustaðnum svo þetta hentar allt afar illa og bætir alls ekki starfsandann að neinu leyti.
Ég hef verið að reyna að vanda matarræðið hjá mér og jafnvel sleppt hlutum sem ég veit að geta valdið gasmyndun en það hefur engu breytt og núna er þetta þannig að frúin hefur farið fram á að ég fari td ekki í handboltaferðalag með syni okkar, af ótta við að ég verði mér til skammar í rútunni, og ég óttast að hún muni fara frá mér af því að ég er prumpari.
Er eitthvað sem þið gætuð ráðlagt mér að prófa til að draga úr vindkviðunum, einhverskonar gas-stopparar í töfluformi, eða eru til einhverjir rasstappar eða hljóðkútar sem væri hægt að nota? Myndu td tíðatappar tempra svona, eða myndi ég þá fyllast af gasi og springa?
Ég vona að ég sé ekki með of mikla framhleypni með þessari fyrirspurn, en þetta er bara eitthvað sem ég get ekki hent upp á facebook til að fá ráð, eða farið í opinn tíma á heilsugæslunni því ég myndi örugglega svæfa alla á biðstofunni eða hlaupa vandræðalegur út af henni með traktorshljóði.
Með fyrirfram þakklæti,
Sæll og takk kærlega fyrir mjög ítarlega og góða fyrirspurn.
Þó svo við séum ekki beint með sérstaka sérfræðinga í viðrekstrarfræðum þá dettur mér eitt og annað sem gæti mögulega aðstoðað þig. Vissulega eru til allskonar „hjálpartæki“ á hinu víðfræga interneti t.d. sérstakar nærbuxur með innleggjum sem eru bæði hljóð- og lyktardeyfandi en það leysir ekki vandamálið sjálft sem ég tel vera nauðsynlegt í þínu tilfelli. Enda engin sanngirni í því að fá aldrei að fara með í handboltaferðalög og hvað þá að eiga það á hættu að standa í skilnaði.
Fyrst og fremst mæli ég með viðtali hjá heimilislækni sem myndi vísa þér áfram til meltingasérfræðings. Það er einhver fæðutegund sem er að valda óeðlilega mikilli gasmyndun hjá þér, einnig gæti meltingavegurinn hugsanlega verið sýktur og er því nauðsynlegt fyrir þig (og sérstaklega þína) að ganga úr skugga um það.
Alls ekki prófa þær hugmyndir sem þú kemur með, þó svo það sé engin sprengiáhætta sem slík, þá munu þessar tappahugmyndir aðeins valda þér miklum óþægindum.
Hér er einnig smá samantekt um vindgang; https://doktor.is/grein/vindgangur
Gangi þér sem allra best
með kveðju,
Lára Kristín Jónsdóttir
Hjúkrunarfræðingur.