Spurning:
Sæl Guðríður.
Ég hef miklar áhyggjur af 8 ára gömlum strák sem ég á. Hann er elstur af fjórum systkinum og á yngri bróður og enn yngri tvíburasystur. Eins og sést á barnahópnum hefur verið mikið álag á heimilinu, tvíburarnir mikið veikir og náttúrulega mikið að gera á stóru heimili. Sá 8 ára hefur alltaf verið kraftmikill strákur og var strax og hann steig í fæturnar alltaf á ferðinni. Við foreldrar hans veltum því mikið fyrir okkur hvort hann væri ofvirkur um 2 ára aldur og ræddum það inní leikskóla en svo var ekki. Hann er mjög skýr strákur og hugsar mikið og hefur mikið ímyndurarafl.
Þegar hann byrjaði í skóla gekk ágætlega að aðlagast en smá hegðurnarvandi inní stofu varð til þess að kennarinn hans sem er alveg frábær ákvað í samráði við okkur að setja upp umbunarkerfi í skólanum þar sem stráksi þurfti að vinna sér inn 7 límmiða og í verðlaun var samvera með mömmu eða pabba. Þetta hentaði stráknum mjög vel og gekk líka mjög vel að vinna sér inn límmiða og naut verðlaunanna. Hann hefur alltaf þurft mikla athygli og öll þessi systkin hafa truflað hann töluvert og er hann í raun mjög mismunandi persónuleiki eftir því í hvaða umhverfi hann er. Skólinn gekk vel námslega í fyrsta bekk en í öðrum bekk fór að bera á kækjum hjá honum sem voru aðallega í kringum munn og í andliti. Þetta leiddi hvað af öðru og að endanum var hann farinn að verða fyrir miklu áreiti í skólanum út af kækjunum þar sem hann var mikið með sár í kringum munninn. Þetta virtist líka bitna á lestri og einbeitingu enda gífurlegt áreiti í andlitinu á honum. Við enduðum með hann hjá heila- og taugalækni sem setti hann á lyf sem heitir Catapressan og virkaði það vel á kækina.
Það tók mig sem móður töluverðan tíma að vinna úr áreitisvandanum sem var í skólanum en með hjálp kennnara og annarra hættu krakkarnir að stríða honum og honum leið mun betur. Í skólalok var hann með mjög góðan lestur og umsögn frá kennara. Stráksi var ekki greindur með túrett enda koma kækirnir þegar hann er undir álagi og nú í vor hurfu þeir alveg þegar skóla lauk. Hann hefur ekki verið á lyfjum nú í sumar og við sjáum nánast aldrei kæki. Lyfin virkuðu lika svolítið róandi á hann en aðallega svona meðan hann var að venjast þeim en nú hefur sumarið, svo ég komi mér að aðalmálinu, verið mjög erfitt. Við ákváðum að senda hann í sumarbúðir í 12 daga og eftir að hann kom heim hefur hann verið vægast sagt mjög erfiður. Hann hefur reyndar alltaf tekið mikla orku frá manni og verið frekar frekur frá fæðingu og þegar tvíburarnir fæddust urðum við foreldrarnir að sleppa svolítið lausum reglum og lögum sökum álags. Í sumar hefur hann sýnt okkur litla virðingu, verið mjög orðljótur og gegnir mjög illa. Hann er mjög hátt stemmdur og gífurlegur hávaði í honum og hann öskrar á okkur ef hann reiðist eða er að biðja um eitthvað sem hann ekki fær. Hann hafði mikla heimþrá í sumarbúðunum og segir við okkur að við höfum viljað losna við hann. Hann segir líka að okkur þyki vænna um öll hin og virðist upplifa sig sem blóraböggul í fjölskyldunni. Hann hefur verið mjög afbrýðissamur út í stelpurnar frá upphafi enda er það töluvert erfitt að vera stóri bróðir í svona stórum hóp. Flest sem fer úrskeiðis er honum að kenna og hann veit það. Hann á yfirleitt upptökin af öllu sem miður fer og þegar hann er úti að leika sér við vini sína gerir hann í því að láta eins og vitleysingur til að láta þá hlæja að sér.
Ég hef mikið reynt að ræða við hann og þá grætur hann og segist ekki ráða við þetta hann vilji t.d ekki segja við mig að ég sé leiðinleg og hann vildi eiga aðra mömmu. Ég er algjörlega ráðþrota með hann og við erum komin í vítahring með samskipti við strákinn og stundum verð ég svo reið að ég fer að gráta yfir þessu öllu saman. Ég er mannleg eins og allir aðrir en hef samt alltaf reynt að leita ráða og 2 sinnum fengið góð ráð hjá sálfræðing með strákinn. Ég hef verið að velta því fyir mér hvort að ég eigi að láta sálfræðing tala við hann líka og vita hvort að hægt sé að hjálpa okkur eitthvað með þetta. Ég sé líka að stráknum líður ekki vel en hann virðist samt ekki geta hamið sig eða bætt hegðun sína. Hann sofnar alltaf seint og á erfitt með að sofna þó að hann sé útkeyrður. Hann kemur aldrei inn við fyrsta kall og oft þarf ég að ná í hann svo hann gegni. Að biðja hann að gera eitthvað er ekki til neins hann hlustar ekki og hreytir í mig og oft glennir hann sig framan í mig. Hann er líka mjög vondur við bróður sinn og níðist á honum oft á tíðum. Hann er skárri við stelpurnar en getur truflað þær í leik og annað þar til þær eru farnar að öskra. Við höfum reynt að setja stelpurnar í pössun til að sinna strákunum vel og okkur finnst við gera alveg nóg fyrir þá en það finnst þessum elsta ekki. Við erum að fara með þá til Mallorka í viku núna í sept. og ekki laust við að ég kvíði fyrir ef ástandið verður óbreytt.
Strákurinn er líka mjög stressaður finnst mér og hefur t.d ekki haft eðlilegar hægðir í allt sumar en er að fara á göngudeild barna í tékk út af því. En þrátt fyrir allt getur hann líka verið mjög góður og indæll og ég veit að hann hefur mikla þörf fyrir það að láta knúsa sig og hrósa sér og það gerum við óspart og ég reyni að segja honum eins oft og ég get að ég elski hann. Núna undanfarið hefur hann líka verið að sýna svona hegðun innan um ömmu og afa og frænkur og frænda og það er nýtt hjá honum og það finnst mér ekki gott. Okey ég gæti sennilega skrifað endalaust um kallinn en spyr þig hvað myndir þú ráðleggja okkur að gera? Getur verið að hann sé með einhvers konar ofvirkni? Heldur þú að þetta sé orðinn vítahringur hjá okkur sem fjölskylda? Ef svo er hvað getum við gert til að komast út úr þessu ástandi? Á ég að fara með þetta í gegnum barnadeildina þegar hann fer í tékk út af hægðunum? Bara svo að þú vitir það þá vinnur pabbi hans til fjögur á daginn en ég vinn 3-4 kvöld í viku frá 8-11. Það er auðvitað mikið að gera hjá svona stórri fjölskyldu en við förum í sund og gönguferðir, hjólatúra og fleira sem krökkunum finnst gaman en oft endar það illa sökum hegðunar stráksins og að fara í bíltúr er mjög erfitt með þau öll. Vona að þú getir bent mér á einhverjar lausnir því ég er ráðþrota með þetta allt saman.
Bestur kveðjur Mamman.
Svar:
Komdu sæl og þakka þér fyrirspurnina.
Já, ég skal trúa því að álagið sé nokkurt á ykkur heima. Leitið ykkur endilega aðstoðar sem fyrst, áður en mál þróast til verri vegar.
Til er félag barna með adhd, áður Foreldrafélag misþroska barna, Laugavegi 178.
Sími: 581 11 10.
Netfang: adhd@mmedia.is
Veffang: www.adhd.is
Á þeirra vegum hafa verið haldin námskeið fyrir foreldra og einnig eru starfandi stuðningshópar foreldra sem mörgum finnst mjög gott að taka þátt í.
Prófaðu að hafa samband við þetta félag og athugaðu hvort þau geti ekki aðstoðað ykkur með næsta skref.
Vona að þessi tilvísun hjálpi.
Annars er þér velkomið að hafa samband aftur.
Með góðum kveðjum,
Guðríður Adda Ragnarsdóttir.
Atferlisgreining og kennsluráðgjöf