Spurning:
Ég er 23ja ára karlmaður.
Ég á við erfiðleika að stríða í vinstri olnboga og úlnlið. Í mörg ár hef ég öðru hvoru haft verki af völdum of mikils álags. Þá hef ég slakað dálítið á og svo byrjað smátt og smátt á ný, og það hefur gefist vel, þangað til fyrir ári síðan. Ég er tónlistarmaður og tónlistarkennari. Framtíð mín er bundin tónlist. Fyrir rúmu ári fékk ég verkjakast og þannig hefur það verið síðan. Verkurinn virðist ætla að verða til frambúðar. Ég hef reynt allt mögulegt en án árangurs. Að lokum leitaði ég til bæklunarlæknis. Þar fékk ég sprautu af bólgueyðandi hormóni og er nú í endurhæfingu. Vandamálið er að það er erfitt að lýsa tilfinningunni og verkjunum fyrir lækni og fyrir sjálfum sér. Þess vegna fór ég í lyfjabúð og fékk þar lítið hefti um gigt. (Heilsa: ný vitneskja um gigt) þar eru nokkrar lýsingar á sjúkdómseinkennum, sem ég kannast ekki við, undir vöðvagigt og gigtarafbrigði með bólgueinkennum en þetta er mjög rýrt og ég hef ekki fundið neinar ítarlegri upplýsingar um þessi gigtarafbrigði. Á þessu ári , sem ég hef haft verkinn, hef ég fundið að það er afar mikilvægt að kannast við og þekkja þau sjúkdómseinkenni, sem líkaminn sendir frá sér, til að fá bestu mögulega meðferð. En það er erfitt ef maður finnur ekki neitt um þetta efni.
Getið þið frætt mig um hvaða bækur, blöð, greinar, upplýsingabæklingar og þess háttar ég gæti lesið til að fá traustar upplýsingar og þar með meiri líkur á að verða góður í handleggnum?
Svar:
Ég fagna því hversu mikinn áhuga þú sýnir því að skilja þau skilaboð sem líkami þinn er að senda frá sér. Ég verð samt að vara þig við þeirri niðurstöðu þinni að halda að þú sért með gigt þrátt fyrir að einkenni sem þú sérð lýst í grein um gigt eigi við þín eigin einkenni. Óþægindi vegna of mikils álags eru einkum verkir, bólguþroti og stundum roði, þ.e.a.s. nákvæmlega sömu einkenni og þegar um gigt er að ræða. Ég get þó ekki sett fram neina sjúkdómsgreiningu á grundvelli lýsinga í skeyti þínu. En þar sem þú ert í meðferð hjá bæklunarlækni, geng ég út frá því að hann hafi fengið heildarsýn yfir sjúkdómseinkenni og að hann hafi útilokað með blóðprufum að um gigt sé að að ræða. Óþægindi eins og þau sem angra þig geta verið torveld viðureignar. Meðal þeirra meðferða sem til greina koma við langvarandi stoðkerfisverkjum vegna álags er að taka hlé frá störfum eða í völdum tilvikum að setja handlegginn í gifs til að veita honum algjöra hvíld. Einnig getur verið að þú þurfir um tíma að taka bólgueyðandi lyf. Síðast en ekki síst þarftu sjálfsagt að gera æfingar. En þetta verður læknirinn þinn að meta.
Ef þú vilt lesa meira um gigt getur þú til dæmis haft samband við Gigtarfélagið og beðið um að þér verði sendir áhugaverðir bæklingar um sjúkdóminn. Sömuleiðis getur þú fundið efni um gigt á Doktor.is
Gangi þér vel.
Kveðja,
Erla Sveinsdóttir, læknir