Spurning:
Góðan dag,mig vantar uppl. varðandi lyf sem heitir FAT BINDER,þannig er að vinnufélagi minn er voða spenntur yfir þessu,og er að hvetja mig til þess að prófa.
Vinsamlega látið mig vita hvort óhætt sé að taka lyfið og hvort að það er yfirhöfuð löglegt…
Svar:
„Fat binder“ er ekki lyf samkvæmt skilgreiningum þess orðs. Það er hins vegar það sem kallað er fæðubótarefni. „Fat binder“ inniheldur efni sem heitir chitosan og er unnið úr skeljum sjávardýra. Framleiðendur og fleiri halda því fram að þetta efni hindri frásog fitu úr meltingarvegi og komi þannig í veg fyrir að líkaminn nýti hana til brennslu og fitusöfnunar. Aðrir halda því hins vegar fram að við venjulega notkun hafi taka fæðubótaefna sem innihalda chitosan ekki marktæk áhrif á líkamsþunga. Notkun þessa fæðubótaefnis er af flestum álitin skaðlaus og hún er lögleg.
Finnbogi Rútur Hálfdanarson,
lyfjafræðingur