Vantar upplýsingar um sykuróþol eða sykurofnæmi

Spurning:
Mig sárvantar einhverjar upplýsingar um sykuróþol eða sykurofnæmi, hvernig það lýsir sér og hvað ég á yfirhöfuð að gera. Mín einkenni eru mjög hraður hjartsláttur og kláði hér og þar um líkamann ef ég borða eitthvað sem inniheldur sykur. Mikið óskaplega væri gott ef þið gætuð gefið mér einhverjar upplýsingar því ég finn hvergi neitt um þetta.

Svar:
Ef ég skil rétt þá áttu eflaust við viðbættan sykur. Ég verð að viðurkenna að ég get ekki séð að sykur framkalli þessi ofnæmiseinkenni. En hafa ber í huga að efnauppbygging  viðbætts sykurs er oftast nær ein þrúgusykureining sem tengist einni ávaxtasykureiningu og þær sykurtegundir finnast ríkulega í ýmsum hollustuafurðum eins og mörgum ávöxtum. Og mér vitanlega eru þessar sykurtegundir ekki ofnæmisvaldar. Aftur á móti innihalda sumar sykurríkar afurðir efni sem geta leitt til óþæginda eins og hjartsláttaraukningar ef  ,,mikil” neysla er viðhöfð. Í þessu sambandi má nefna dökkt gos og súkkulaði sem inniheldur koffein.

 

Kveðja, Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur