Var lagður í einelti sem barn og líður illa

Spurning:

Komið þið sæl.

Í Þessu bréfi mun ég reyna að útskýra hvernig mér líður og ég vonast eftir svar en ef þið getið ekki svarað vegna anna eða einhvers þá nær það ekki lengra.

Ég veit eiginlega ekki hvað er að, aðra stundina er ég afar ánægður með líf mitt, ánægður með vini mína sem eru frábærir og ennþá ánægðari með vinkonur mínar sem mér þykir ótrúlega vænt um. En meirihluta tímans get ég ekki annað séð en að líf mitt hefur verið lifandi helvíti.

Ég var lagður í einelti fyrstu 12 ár lífs míns og hafður að háði og
spotti
af öllum, þar á meðal af besta vini mínum. Eftir það flyt ég á nýjan stað og þar eignast ég eiginlega mína fyrstu vini. Þeir gerðu að vísu líka grín að mér( þeir vissu ekki bara um eineltið og vissu þá ekki hve
þetta risti djúpt).

Þá byrja ég einnig fyrst að muna eftir „fúla skapinu“ (eins og vinur minn vill kalla það). Ég varð ástfanginn en hitti hana ekki í 4 vikur og þá var hún byrjuð með öðrum. Svona gengur
lífið upp og niður í 5 ár en þá kynnist ég stelpunum sem ég minntist
á áðan … ég elska þær út af lífinu og myndi glaður deyja fyrir þér en alltaf skal mér finnast eins og þeim er alveg sama. Um áramótin kom ég að einni af þeim að kyssa vin minn, ég gekk bara út úr herberginu (lokaði það inni í hausnum, geri það alltaf þegar mótbyr er). Þá kom ein af stelpunum og spurði hvort ég væri sáttur við það, (hún vissi að ég væri hrifin af henni) og ég sagði já.
Ég fæ alltaf í þunglyndisköst þegar ég sé
Þær kyssa aðra stráka og líður illa.

Vinkona mín lést í bílslysi fyrr á árinu og mér líður alltaf illa þegar ég hugsa um það. Ég hlusta mikið á Sigurrós og tengi mig mikið við tónlist almennt (ég hef tvisvar brotnað niður og farið að gráta við lagið: Hjartað hamast BOM BOM BOM á ágætis byrjun).

Eitt enn, ég fór í sumarbústaðarferð með stelpunum, skreið þar upp í rúm og fór bara að gráta upp úr þurru, ég grét og grét og leið ótrúlega illa vegna þess að enginn tók eftir því.

Ég er búin að drekka nokkra bjór og mig langar að deyja bara til að sjá hvort einhver myndi sakna mín, hvort einhver myndi taka eftir því, en ég varð bara að skrifa þetta bréf þó ég hafi ekki hugmynd um hvort það verði lesið.

Takk fyrir mig.

Svar:

Sæll og takk fyrir bréfið.

Ég hefði þó frekar viljað að þú hefðir skrifað bréfið allsgáður.

Það er ljóst að þér líður mjög illa og átt við að stríða afleiðingar eineltis í æsku. Með því hvernig þú byrjar bréfið lýsir þú því hve óöruggur þú ert og hefur lítið sjálfstraust og sjálfsvirðingu. Síðan er allt bréfið lýsing á því hve illa þér líður og að þú hefur ekki unnið neitt úr því að hafa orðið fyrir einelti í æsku. Þú lætur bæði vini og kærustur fara illa með þig og augljóst er að þeir sem umgangast þig bera enga virðingu fyrir þér, enda ferð þú ekki fram á slíka virðingu.

Eina leiðin til þess að þér geti farið að líða betur er að þú takist á við það hvernig þú lítur á sjálfan þig og hvernig þú gerir kröfur til annarra og setur þeim mörk. Miðað við það sem þú lýsir í bréfinu mun það kosta þig þó nokkra vinnu og átök og þú munt örugglega þurfa að leita þér aðstoðar við það.

Þú þarft að byrja á því að skoða hjá sjálfum þér hvort þú ert tilbúinn til slíkra átaka og hvort þú raunverulega vilt það. Ef þú ert ákveðinn í að breyta til og endurskoða líf þitt og það hvernig þú lifir því skalt þú endilega leita þér aðstoðar hjá sálfræðingi við að styrkja sjálfstraust þitt og sjálfsvirðingu og læra að setja öðrum mörk og gera kröfur til annarra.

Kveðja,

Sigtryggur Jónsson, sálfræðingur