Varðandi blæðingar

Góðan dag
Mig langaði að forvitnast aðeins. Málið er þannig að eftir að ég hætti á getnaðarvörn (pillunni) þá hafa blæðingar hjá mér verið frekar reglulegar, örlítil seinkun hér og þar en ekkert sem hefur haft nein áhrif. Núna hinsvegar er ég orðin 7 dögum of sein, daginn áður en ég átti að byrja á blæðingum kom örlítil brún útferð (þurfti varla að nota inlegg) og líka fyrsta daginn sem ég átti að byrja og svo ekkert meira. Ég er ekki með nein óléttu einkenni sem hægt væri að nefna nema þreytu. Óléttuprófið sem ég tók í gær þá orðin 6 dögum of sein var neikvætt. Er einhver möguleiki á að þetta geti tengst einhverju öðru? veit lítið hvert ég á að snúa mér og virðist ekki geta fengið tíma hjá neinum kvensjúkdómalækni fyrr en eftir að minnsta kosti 2 mánuði.

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Líklegasta skýringin fyrir þessu væri bara óregla á blæðingum, þær geta komið annað kastið þó svo að þú sért vön að vera regluleg. Óléttuprófið væri jákvætt ef þú værir ófrísk.

Fyrst að þetta er í raun í fyrsta skipti sem þú ert óregluleg þá er í lagi að bíða bara aðeins og sjá, ef þú ert ekki með nein önnur óþægindi. Ef þú heldur áfram að vera óregluleg þá gætir þú talað við kvensjúkdómalækni.

Gangi þér vel,

Með kveðju,

Bylgja Dís Birkisdóttir
Hjúkrunarfræðingur