Varðandi Kínín?

Spurning:
Komið þið sæl.
Mér var nýlega bent á af lækni á Sjúkrahúsinu í Fossvogi að taka inn Kínín vegna slæms sinadráttar í kálfa. Mér var sagt af viðkomandi lækni að ég fengi 100 mg töflur í apóteki án lyfseðils. Með það fer ég í apótekið í Hverafold í Grafarvogi en þar er mér tilkynnt að það sé fyrir löngu síðan hætt að afgreiða Kínín án lyfseðils, en svo les ég hjá ykkur að 100 mg sé selt án lyfseðils. Þannig að spurningin er hvort er rétt? Þið og doktorinn eða apótekið og ef það er apótekið hversu áreiðanleg er þá lyfjahandbókin? Með fyrirfram þökk

Svar:
Ég verð að viðurkenna að apótekið hefur rétt fyrir sér þarna. Hér áður fyrr mátti selja 20 kínín töflur 100 mg án lyfseðils. Þessu var hætt fyrir all mörgum árum vegna hættu á ákveðnum aukaverkunum. Lyfjahandbókin er almennt mjög áreiðanleg. Eins og öll mannanna verk er hún hins vegar ekki fullkomin. Þetta atriði hefur sloppið framhjá í einhverri endurnýjuninni, enda er megináherslan lögð á að upplýsingar um verkun, aukaverkanir og þ.h. sé rétt. 

Finnbogi Rútur Hálfdanarson
lyfjafræðingur