Vatnsdrykkja og fíkniefnapróf

Góða kvöldið. Við erum að velta fyrir okkur hvort að mikil vatnsdrykkja getur haft áhrif á útkomu á kanabisprófi. Þannig er mál með vexti að við erum að taka þvagsýni af 2 af unglingunum okkar reglulega vegna kanabisnotkunar og notkunar á thc vökva í veipur. Fyrir síðasta próf sem við tókum þá þömbuðu þeir allsvaðalega mikið af vatni áður en við tókum prófið. Við vorum að spá hvort að það geti haft áhrif á niðurstöðu úr prófinu? Með fyrirfram þökk um skjót svör.

Sælar og takk fyrir fyrirspurnina

Það er hægt að skoða ýmis ráð á netinu varðandi það hvernig eigi að hafa áhrif á útkomu á fíkniefnaprófum og þau eru misgáfuleg.

Ég hvet ykkur til þess að skoða þau og kynna ykkur því unglingarnir ykkar gera það pottþétt.

Hvað varðar vatnsdrykkju eru menn almennt sammála um að hún hefur ekki áhrif á útkomuna enda er það svo að margir eiga erfitt með að pissa eftir pöntun og þurfa þess vegna að drekka töluvert áður en próf er framkvæmt.

Að þessu sögðu er að sjálfssögðu mikilvægt að ræða vel við þá sem verið er að prófa, hvers vegna það er verið að gera það og hvaða afleiðingar það hefur ef prófið verður jákvætt.

Gangi ykkur vel

Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur