Veikindi tengd eyrnahreinsun

Góðan dag.

Sonur minn sem er 8 ára gamall verður mjög oft veikur. Nú er hann heima með háan hita og bólgur í hálsi (erfitt að kyngja). Ég veit að þetta hljómar furðulega, en ég er orðin (nokkuð) sannfærð um að þessi tíðu veikindi hans tengist eyrnahreinsun með eyrnapinnum! Hann hefur mikinn og dökkan merg, en ég er frekar á móti eyrnapinnum og nota þá sjaldan. En fyrir þremur dögum hreinsaði ég eyrun hans með pinna og hann fór strax daginn eftir að kvarta undan verkjum í hálsi og leið almennt ekki vel, eflaust þá kominn með smá hita. Hann verður svo til alltaf veikur þegar ég hreinsa eyrun með eyrnapinna. Fyrst leit ég fram hjá þessu og ákvað að þetta væri bara svona ótrúleg tilviljun, en nú hefur þetta gerst það oft að mér finnst ég hafa sönnun á því að þetta tengist. Ég hef farið með hann til háls-, nef- og eyrnalæknis og hann sagði að það liti allt vel út, en væri talsverður mergur. Einu sinni þegar hann var u.þ.b. árs gamall fékk hann eyrnabólgu sem varð ekki alvarleg.
Hvað á ég að gera? Getur verið að það sé eitthvert undirliggjandi vandamál í eyranu?

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Það er frekar ólíklegt að þetta tengist með beinum hætti. Eyrnagöngin eiga að vera lokuð með hljóðhimnu og þess vegna ætti mergurinn  í ytra eyranu ekki að komast inn fyrir hana. Hins vegar getur hljóðhimnan sprungið og þá er greiður aðgangur inn í miðeyrað og um leið getur slím runnið út um gatið í ytra eyrað þegar einstaklingur er með kvef og hor og þá finnst manni vera meiri mergur. Slíkt rof á hljóðhimnu grær venjulega af sjálfu sér. Að sama skapi hafa háls, nef og eyrnalæknar stundum mælt með því að fjarlægja nefkirtla hjá börnum með tíð einkenni frá eyrum og hálsi.

Að þessu öllu framansögðu mæli ég með að þið ráðfærið ykkur við háls, nef og eyrnasérfræðing m.t.t. að fara yfir stöðuna og meta hvort eitthvað sé hægt að gera fyrir son þinn til þess að efla heilsu hans.

Gangi ykkur vel

Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur