Veldur of mikil neysla króms svima?

Fyrirspurn:

 

Hef verið að fá mikil svimaköst þar sem ég get vart legið né staðið, köstin koma og standa yfir í smá stund með mikilli ógleði. Ég var að taka inn króm en hætti því og finnst þetta hafa lagast. Þessi sterku svimaköst stóðu yfir í viku, er reyndar enn að fá svimann en ekki eins mikinn. Getur þetta verið af krómnotkun?

svar:

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Svimi og svimaköst geta verið orsökuð af ótal hlutum s.s. háum blóðþrýstingi, veirusýkingum, truflun á vökvajafnvægi og sýkingum í innra eyra. Nú veit ég ekki hvers vegna þú ert að taka inn króm að staðaldri þar sem skortur á krómi er afar sjaldgæfur en ofskömmtun á krómi á ekki að geta haft skaðleg áhrif af þessu tagi sem þú lýsir.Á vefnum Doktor.is getur þú slegið inn leitarorðið Króm og þar er ýmsan fróðleik að finna. Ef sviminn lagast ekki ráðlegg ég þér að fara til heimilislæknis og finna út hvað getur verið að valda honum.

 

Með bestu kveðju

Guðrún Gyða Hauksdóttir

Hjúkrunarfræðingur