Verkir eftir bakpokaferðalag

Spurning:

Góðan daginn.

Mig langar til að vita hvort ég hafi ofreynt mig í sumar í minni fyrstu fjallgöngu sem var 45 km og tók 3 daga. Bakpokinn var 12-15 kg og var það erfiðast við gönguna að bera hann. Samt fann ég ekkert fyrir neinum strengjum eða óþægindum fyrst á eftir. En núna, 4-6 vikum eftir ferðina finn ég fyrir þreytu og eins og beinverkjum, aðallega í mjöðmum og fótum eins og eftir að bera eitthvað þungt. Var ekki í neinni þjálfun fyrir ferðina. Gæti ég hafa skemmt eitthvað í stoðkerfinu?

Ein 45 ára.

Svar:

Sæl.

Ég mundi ekki orða þannig að þú hafir beinlínis skemmt eitthvað í stoðkerfinu þó þú finnir fyrir eftirköstum núna. Það er ekkert óeðlilegt að þú fáir álagseinkenni eftir þessa göngu ef þú ert ekki í neinni þjálfun. Það er álag á líkamann að bera 12-15 kg 15 km dagleið og hvað þá fyrir óþjálfaða. Ég vil á engan hátt draga úr þér kjarkinn varðanda svona göngur því þær eru hressandi fyrir sál og líkama en langar að benda þér á nokkur atriði sem almennt er gott að hafa í huga í upphafi ferðar og gætu komið í veg fyrir að þetta endurtaki sig. Eins og allir vita eru auðvitað góðir gönguskór nauðsynlegir, einnig bakpoki sem er stillanlegur, þá er nauðsynlegt að gera góðar teygjuæfingar fyrir vöðvana í fótleggjum og á mjaðmasvæði í lok hvers göngudags. Síðast en ekki síst skiptir verulegu máli að vera í þokkalegri þjálfun svo að þreyta og eftirköst verði ekki yfirþyrmandi eftir ferðina. Það sem þú finnur núna er eflaust þreyta og eymsli í vöðvunum og ég ráðlegg þér að reyna að ná þessu úr þér með léttum gönguferðum eða sundi t.d. (heitu pottarnir geta hjálpað) og teygja vel á eftir. Það hefur góð áhrif á vöðvahópa sem hafa ofreynt sig að gera léttar æfingar sem örva blóðstreymi til vöðvanna þannig að þeir fái súrefni og losni við úrgangsefni.
Vona að næsta gönguferð gangi vel!

Kveðja,
Sigþrúður Jónsdóttir, sjúkraþjálfari í Styrk sjúkraþjálfun.