Verkir í brjósti

Spurning:

Sæl.

Ég hef verið með verki í brjóstum, fyrst vinstra og nú í báðum. Þau eru
bólgin og þrútin og ég finn smá hnúða, en þeir eru mjúkir. Er þetta
eitthvað sem ég þarf að hafa áhyggjur af?

Svar:

Einkenni af þessu tagi vekja út af fyrir sig ekki grun um
brjóstakrabbamein, sérstaklega ekki ef þetta eru einkenni, sem koma og
fara. Það er hins vegar erfiðara að skoða brjóst, sem eru þrútin, bæði
fyrir konuna sjálfa og aðra. Ef um unga konu er að ræða ráðlegg ég henni að
bíða fram yfir næstu blæðingar til að sjá, hvort þessi einkenni sveiflast
með tíðahringnum. Ef um eldri konu (yfir fertugt) er að ræða, sem ekki er
tiltölulega nýbyrjuð að taka hormóna og hefur ekki haft svona einkenni
áður, ráðlegg ég henni að láta lækni líta á brjóstin og fara í myndatöku.

Anna Björg Halldórsdóttir læknir á röntgendeild Krabbameinsfélagsins.

Minnt er á að hjá Krabbameinsráðgjöfinni er hægt að fá ýmsar upplýsingar um
krabbamein. Síminn er 800 40 40 kl. 15-17 virka daga. Einnig er hægt að
senda fyrirspurnir í tölvupósti: 8004040@krabb.is