Verkir í fótum

Spurning:

Sæl.

Ég hef nú um þriggja vikna skeið haft alveg óstjórnlega verki í fótunum. Þeir lýsa sér þannig að beinin í hægra fætinum eru svo aum viðkomu, sérstaklega sköflungurinn og síðan eru eymsli í hné og verkur aftan í kálfanum. En aðal verkurinn kemur frá beinunum. Ég fór í blóðprufu þar sem fram kom að ég hefði þvagsýrugigt en mér finnst sjúkdómslýsing á henni ekki stemma við það sem ég upplifi í dag. Þegar þessarar gigtar varð fyrst vart, þá hafði ég verki í stóru tá en það er ekki núna. Ég er of þung en getur verið að eitthvað alvarlegra en þyngsli og þvagsýrugigt séu að plaga mig. Læknarnir gáfu mér verkja- og bólgueyðandi pillur en það dugði ekkert á verkina. Gott ef þú vildir svara mér.

Kveðja

Svar:

eða Þessi einkenni sem þú lýsir gætu verið af fleiri en einni orsök og erfitt að segja út frá sögu þinni einni, nauðsynlegt er að skoða fætur og fá nákvæmari sjúkrasögu til að fá heildarmynd af ástandinu. Það kemur t.d. ekki fram hvort verkurinn liggur framan eða aftan í hnéinu, en verkur aftan í hné og niður í kálfann getur bent til blóðtappa í fætinum. Það hefði einnig verið gott að vita um aldur þinn og hvort þú ert að taka einhver lyf reglulega en það getur haft áhrif á sjúkdómsmyndina. Það besta sem ég get gert fyrir þig í bili er að senda þér lista yfir helstu orsakir fyrir verkjum í fótum og þú getur þá lesið um þessa sjúkdóma hér á Doktor.is. Þessi listi er þó engan veginn tæmandi og rétt er að þú hafir samband við heimilislækninn þinn a.m.k. til að útiloka að um blóðtappa sé að ræða ef þér finnst einkennin passa. Bólgur í liðum (liðagigtþvagsýrugigt). Sýkingar í liðum eða beinum. Vöðvakrampar í fótum. Skortur á steinefnum (natríum, kalíum, magnesíum), sést gjarnan hjá sjúklingum sem taka þvagræsilyf. Sjúkdómar í bláæðum, æðahnútar eða blóðtappar. Sjúkdómar í slagæðum, æðakölkun eða blóðtappar.

Til að lina verkina ráðlegg ég þér að hafa hátt undir fætinum meðan þú situr og reyna að hvíla hann alltaf þegar þú hefur tækifæri til. Létt nudd á fótinn, og að nota heita og kalda bakstra til skiptis linar einnig verkina. Haltu áfram að taka lyfin sem læknirinn þinn lét þig fá. Ef verkurinn er ekkert betri en þegar þú leitaðir til hans ráðlegg ég þér eindregið að hafa samband við hann aftur.
Gandi þér vel,

Kveðja,
Sólveig Mangúsdóttir, læknir