Spurning:
Sæll Högni.
Undanfarna mánuði hef ég átt við smá vandamál að stríða með aftaní-lærisvöðvana. Ég æfi fótbolta og eftir hverja einustu æfingu þá verð ég stífur og aumur í þeim. Ég hef reynt að teygja vel en það dugar ekki. Líka hef ég farið í heita pottinn og reynt að mýkja þetta upp en mér finnst ekkert virka. Mér finnst þetta farið að hefta mig mikið því ég reyni alltaf að hlífa mér og get þá ekki reynt fullkomlega á mig og núna í undirbúningstímabilinu var ég byrjaður að finna til neðantil í bakinu og svo tognaði ég í hægra lærinu. Hefur þú einhver ráð? Ég er 27 ára fótboltafrík.
Svar:
Ef þú ert stífur og aumur í vöðvunum eftir æfingar þá eru tvær skýringar sem eru jafnlíklegar. Annars vegar getur þú verið með stutta vöðva aftan á lærinu sem er mjög algengt hjá knattspyrnumönnum. Hins vegar getur verið að þú sért að hefja undirbúningstímabilið með of miklum látum eftir að hafa verið í kyrrsetu í vetur.
Ef þú ert með of stutta vöðva þá verður þú að halda áfram að teygja, ekki bara á „aftanílærisvöðvum“ hér eftir kallaðir hömlungar, heldur á öllum vöðvahópum í neðri útlimum. Þó margir telja sig teygja vel þá er það því miður staðreynd að engar æfingar eru jafn illa framkvæmdar af íþróttamönnum og teygjuæfingar. Það er að ótal mörgu að huga, líkamsstaðan verður að vera 100% rétt, það verður að halda teygjunni nógu lengi og endurtaka hana nógu oft. Það er vonlaust fyrir mig að reyna að leiðbeina þér nákvæmlega með það í gegnum tölvuskeyti og þú ættir að leita til fagmanns, þ.e.a.s sjúkraþjálfara til þess að láta hann skoða og meta meiðslin og kenna þér að gera æfingarnar rétt. Þú getur samt sem áður prófað sjálfur hvort vöðvarnir eru of stuttir með því að leggjast á bakið með fætur beina og lyfta öðrum fætinum beinum upp í vinkil. Ef þú getur það ekki með hinn fótinn alveg flatan á gólfinu ert þú með of stutta hömlunga.
Til þess að komast að því hvort að þú ert að æfa á of miklu álagi er nákvæmast að fara í mjólkursýrupróf. Ef æfingar eru of erfiðar miðað við þjálfunarstig einstaklings eða of lítil hvíld á milli þeirra, nær líkaminn ekki að brjóta niður mjólkursýruna sem myndast í vöðvunum við svo kallaða loftfirrða þjálfun, en dæmi um hana eru t.d sprettir á fótboltaæfingu. Með loftfirrðri þjálfun er átt við að þá nær vöðvinn ekki að nýta súrefni við framleiðslu á orku og myndar þá mjólkursýru sem úrgangsefni. Þegar þetta gerist er talað um að vöðvinn „súrni“ og verður stífur og aumur. Ofþjálfun veldur einnig því að einstaklingar ná ekki að að bæta úthald sitt eins og ætla mætti af þjálfunaráætluninni.
Þeir sem eiga við íþróttameiðsli að stríða jafnt sem aðra líkamlega kvilla eru mjög oft að leita að einhverjum skyndilausnum á vandamálum sínum, svo sem verkjapillum, bólgueyðandi, tejpingum o.s.frv og oft tökum við sjúkraþjálfarar þátt í að veita þær. Það má réttlæta það með því ef fullorðnum einstaklingi finnst keppnin sem hann er að taka þátt í mikilvægari en heilsa hans í framtíðinni, en það er þá mikilvægt að viðkomandi geri sér grein fyrir afleiðingum þess að æfa og keppa meiddur. Eina alvöru lausin á íþróttameiðslum er markviss endurhæfing og að leikmenn sjálfir taki ábyrgð á eigin líkama og haldi sér í sem bestu líkamlegu formi árið um kring, það þýðir heldur ekkert að sleppa úr einhverjum þáttum eins og oft er tilfellið með t.d. liðleikaþjálfun. Ábyrgð þjálfara er að sjálfsögðu einnig mjög mikil í þessu sambandi.
Ég ætla ekki að fara meira út í predíkanir að sinni en bendi þér á að lesa greinar mínar um íþróttameiðsli sem eru að finna hér á Doktor.is.
Högni Friðriksson, sjúkraþjálfari