Verkir í mjaðmagrind á meðgöngu?

Spurning:

Góðan daginn.

Nú standa málin þannig hjá mér að ég er komin á 16. viku meðgöngu og hefur allt gengið eins og í sögu. Aftur á móti er mjaðmagrindin hjá mér skökk og rófubeinið innsveigt og hef ég gengið til sjúkraþjálfara vegna þess, en ég hef ekki farið í eitt og hálft ár núna. Eftir að ég varð ófrísk fór ég að finna fyrir smávægilegum verkjum í mjaðmagrindinni, aftarlega nálægt rófubeininu og nú standa málin þannig að þetta fer versnandi og í dag er þetta farið að há mér þó nokkuð. Ég veit ekki hvort að eitthvað sé hægt að gera við þessu, eða hversvegna þetta er að versna svona en ef þið gætuð hjálpað mér eitthvað væri það mikils metið.

Virðingafyllst.

Svar:

Sæl.

Ástæða þess að þú finnur meira fyrir mjöðmunum þegar þú ert þunguð er hormón sem myndast í fylgjunni og veldur slökun á liðböndum þannig að þeir hlutar stoðkerfisins sem eru veikir fyrir mýkjast enn frekar og geta valdið verkjum. Best væri sjálfsagt fyrir þig að hitta sjúkraþjálfarann þinn og fá hjá honum ráðleggingar og meðferð því ekki er ólíklegt að þetta eigi eftir að halda áfram að versna á meðgöngunni.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir