Verkjalyf á meðgöngu?

Spurning:
Kæra Dagný, ég verð að fá svar sem fyrst. Ég er komin 5 vikur á leið. Hef verið að taka Nobligan vegna verkja í mjöðm og vegna höfuðverkjar. Er það í lagi? Má ég taka það stundum? Það er voða lítið annað sem virkar. Kemur það til með að skaða barnið? Kveðja kjúlli

Svar:
Nobligan er ekki lyf sem konur ættu að nota á meðgöngu. Í texta lyfjastofnunar með lyfinu Nobligan (Tramadol) segir:

,,Í dýrarannsóknum á tramadoli, þar sem notaðir hafa verið mjög stórir skammtar, hafa komið fram áhrif á þroska líffæra, beinmyndun og dauðsföll hjá nýfæddum. Ekki hafa sést nein fósturskemmandi áhrif. Tramadol fer yfir fylgju. Þekking á öryggi við notkun tramadols handa þunguðum konum er takmörkuð og því eiga þungaðar konur ekki að nota Nobligan.“

Sértu með það slæma verki að þú verðir að nota þetta sterka verkjalyf ættir þú að láta lækninn þinn vita og skoða vel önnur úrræði eins og t.d. sjúkraþjálfun, nudd eða nálastungur.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir