Verkjapenninn Pain Gone?

Spurning:
Getið þið sagt mér eitthvað um verkjapennann Pain Gone sem er verið að auglýsa í Svensson bæklingnum? Er eitthvað að marka þetta eða er þetta bara eitthvað töfradrasl sem á að vera allra meina bót enn er svo bara eitthvað drasl sem ekki virkar?

Svar:

Því miður get ég ekki gefið þér mjög faglegt svar við spurningu þinni þar sem ég hef ekki séð þannig umfjöllun um þennan verkjapenna.
Ég er hins vegar hræddur um að í yfirlýsingum um þessa vöru frá hendi framleiðenda og seljenda sé gert mun meira úr ágæti hennar en hægt er að standa við.
 
Oft er svona gert með yfirlýsingum ánægðra viðskiptavina sem kveðast hafa fengið allra meina bót af notkun vörunnnar. Við sem lesum síðan þessar yfirlýsingar höfum enga möguleika á að vita neitt um raunverulegan uppruna þessara yfirlýsinga. Eru þær yfirlýsingar frá fólki sem hefur fengið raunverulegan bata, eða jafnvel ættaðar frá aðilum sem hafa hagsmuni af sölu vörunnar eða aðstandendum þeirra?
Oft getur einig verið um að ræða svokölluð lyfleysuáhrif (placebo effect). Í öllum skipulögðum, blindum eða tvíblindum rannsóknum á lyfjum og öðrum hlutum sem undirgangast slíkar rannsóknir, koma fram mismikil lyfleysuáhrif. Þ.e.a.s. þeim sem taka þátt í rannsókninni er skipt í tvo hópa. annar hópurinn fær lyfið sem á að prófa, en hinn fær óvirkt lyf svokallað lyfleysu. Viðkomandi veit ekki hvort hann fær virkt lyf eða lyfleysu. Ef sá sem metur árangurinn veit ekki heldur hvort viðkomandi fékk fyrr en að loknu mati, er rannsóknin kölluð tvíblind. Þetta er gert til þess að tryggja að hann leggi hlutlægt mat á áhrifin. Virkni lyfsins er síðan metin sem mismunur á árangri í þessum tveimur hópum.
Þess vegna eru yfirlýsingar einstaklinga sem telja sig hafa fengi bót sinna meina með notkun einhverrar tiltekinnar vöru ekki marktæk í raun. Viðkomandi gæti hafa upplifað þessi svokölluðu lyfleysuáhrif. Oft getur þarna verið um jafnvel 10% eða fleiri.
 
Þetta svarar alls ekki spurningu þinni en er tilraun til útskýringar á því hvað ég hef litla trú á virkni Pain gone pennans, án þess að ég vilji fullyrða um að virki eða virki ekki.
 

Með bestu kveðju,

Finnbogi Rútur Hálfdanarson

lyfjafræðingur