Verkur í fingrum og doði.

Vakna upp með sáran verk í únlið og doða og verk fram í fingur aðallega löngutöng

Sæl/ll og takk fyrir fyrirspurnina

Það þyrfti nánari upplýsingar og skoðun svo hægt sé að leggja mat á hvað hér getur verið á ferðinni.

Líklega er um að ræða klemmu á taug eða skert blóðflæði fram í fingur  og getur það stafað af því að þú liggir of þungt á þeirri hliðinni sem veldur þessum einkennum. Það ætti að jafna sig um leið og hreyfing kemst á handlegginn og blóðflæðið verður eðlilegt. Önnur skýring getur verið sinaskeiðabólga eða þrengingar á sinaslíðrum í úlnlið. Þetta veldur skerðingu á blóðflæði og þrengir að taugum. Það er hægt að sporna við því með því að draga úr bólgum og draga úr álagi á úlnliðinn og styðja við hann t.d. með sérstakri spelku eða teygjuvettlingi. Í sérstaklega slæmum tilfellum þarf aðgerð til þess að losa um sinaslíðrið.

Ef þetta er viðvarandi vandamál skaltu fá nánari skoðun og mat hjá heimilslækni.

Gangi þér vel

Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur