Verð ekki ólétt en ekkert finnst að

Spurning:

Sæll.

Ég er 24 ára og ég og maðurinn minn erum búin að reyna að eignast barn í eitt og hálft ár og ekkert gengur. Hann er búinn að fara í sæðisrannsókn og ég í endalausar heimsóknir til lækna.

Ég fór í röntgenmyndatöku þar sem skuggaefni var sprautað í eggjastokkana og læknirinn sem gerði það sagði að eina sem hefði verið að, var einhver smá fyrirstaða í öðrum eggjastokknum en hún fór og hann sagði að allt væri eðlilegt hjá mér. Þetta er ég búin að heyra í eitt og hálft ár en ekkert gerist, ég tók frjósemislyf einu sinni einn skammt en ekkert gerðist.

Blæðingar hafa alltaf verið reglulegar hjá mér nema síðastliðið ár þá hafa þær verið óreglulegar. Þetta tekur rosalega á að bíða alltaf og heyra að ekkert sé að en ekkert gerist. Getur þú gefið mér einhver ráð varðandi þetta?

Ég hef einnig heyrt að inntaka fólinsýru sé góð fyrir konur sem eru að reyna að verða óléttar, eykur það líkurnar eitthvað? Vonandi getur þú eitthvað frætt mig um þetta.

Kveðja,
ein sem lifir í voninni.

Svar:

Ágætu hjón.

Mér sýnist að búið sé að fullrannsaka ykkur eða svo til og ekkert hafi samt gerst. Þannig er að stór hluti af ófrjósemi er óskýrður. Þó er oft að margir smáir hlutir geta lagst á eitt um að minnka frjósemi. Maður þarf því að sjá fyrir sér svör úr sæðisprófum og hormónaprófum til að geta tjáð sig. Það getur þurft að endurtaka oft örvanir með lyfjum ef þú ert ekki með egglos á réttum tíma, en svo hljómar sem einhver truflun sé komin á síðastliðið ár. Ég held að það sé tiltölulega einfalt ferli eftir hjá ykkur, örfáar viðbótarrannsóknir. Læknirinn ykkar hefur ábyggilega hugsað sér það. Að öðrum kosti er alltaf hægt að leita annarra ráða eða fara á lista fyrir tæknifrjógvun.

Fólinsýra dregur úr líkum að barn fæðist með vaxtargalla en eykur ekki svo vitað sé líkurnar á þungun. Það ættu allar konur sem eru í barnseignarhugleiðingum að taka fólinsýru og eða vítamín með henni í.

Ég held þið ættuð að geta gert ráð fyrir því að vera orðin foreldrar innan tveggja ára, e.t.v. fyrr ef vel er unnið í ykkar málum.

Bestu kveðjur,
Arnar Hauksson dr. med.