Viftur og ungabörn?

Spurning:

26 ára – kona

Sælir doktorar.
Ég var að velta fyrir mér öndunarfærum ungbarna. Ég bý erlendis og það er mjög heitt hjá okkur núna og við erum mikið með viftur í gangi til kælingar.

Ég á dóttur sem er mánaðargömul og ég spyr hvort það gæti verið slæmt fyrir hana að vera þar sem eru viftur í gangi- hún fær að sjálfsögðu ekki beinan blástur á sig, en hún hnerrar oft og ég tek grænt hor úr nefinu á henni á hverjum degi sem stíflar hana.  Með þökk

Svar:
Góðan og blessaðan daginn og hjartanlega til hamingju með dótturina.

Þetta er sameiginlegt viðfangsefni allra mæðra, sama hvar í veröldinni við eigum heima.  Við viljum að unganum okkar líði sem allra best og þar með að honum sé ekki of heitt og ekki of kalt.  Ungabörn eru ákaflega misjöfn hvað þetta varðar.  Sum eru mjög heitfeng, þeim er alltaf heitt og þau jafnvel sveitt.  Ef þeim er of heitt líður þeim ekki vel.  Þau verða slöpp og sljó og verða löt við að drekka.  Sama á við ef þeim er of kalt.  Súrefnisþörf þeirra eykst ef þau kólna og öll þeirra orka fer í það að halda uppi réttum líkamshita. 

Almennt er erfitt að gefa mæðrum ráðleggingar um þetta vegna þess hversu misjöfn börnin eru, heldur verðum við að þreifa okkur áfram.  Vittu til að það tekur þig ekki langan tíma að finna út hvað hentar best telpunni þinni.
Hún á að vera hlý viðkomu, hún á ekki að hafa bláa fingur og tær og hún á ekki að vera sveitt.  Viftur eru góður ef umhverfishitinn er of hár en bara passa að henni verði ekki of kalt.

Flest ungabörn hnerra oft og það er ekkert athugavert við það.  Nefið þarf að vera sæmilega hreint, ef þau eru stífluð eiga þau erfitt með að drekka.
Það getur verið gott að hreinsa nefið með saltvatnsdropum, þá ættir þú að fá í einnota umbúðum í apóteki en það er ekki mælt með því að vera að fara með aðskotahluti eins og t.d. sogrör upp í nefið, það ertir bara slímhúðirnar.

Gangi ykkur sem allra best,
Kær kveðja,

Þórgunnur Hjaltadóttir,
Hjúkrunarfræðingur og ritstjóri doktor.is