Vill grennast á meðgöngu, hvað er til ráða?

Spurning:

Í tæp þrjú ár hef ég og maðurinn minn verið að reyna að eignast barn, en það hefur ekki gengið sem skildi útaf því að ég fékk sjaldan blæðingar og var með of mikið karlhormón, ég gekk á milli lækna og þeir létu mig hafa hinar og þessar töflur og sögðu mér svo að reyna að létta mig, hefur mér gengið það frekar illa.
Loksins hittum við fyrir almennilegan læknir og að lokum eftir að það voru teknar blððrur á eggjastokkunum í byrjun júní þá varð hinn langþráði draumur að veruleika og ég er loksins orðin ólétt. Í apríl ákvað ég að fara á Herbalife, mér fannst ég ekki hafa neinu að tapa að prófa þetta, ég er búin að léttast um 7 kíló síðan þá og eins og þú sérð þá fara þau mjög hægt, ég er orðin núna 100 kíló þannig að ég er töluvert yfir kjörþyngd þar sem ég er ekki nema 165 cm. á hæð.
En svo fyrir rúmri viku þá gerði ég tvö þungarpróf, eitt á sunnudegi og eitt á þriðjudeginum á eftir því að ég trúði því eiginlega ekki að ég væri ólétt og ákvað að fara til læknis og ég hélt að hann myndi taka prufu líka og skoða mig og svoleiðis en hann gerði ekki neitt af þessu, sagði að hann þyrfti því ekki því að það væri örugglega öruggt að ég væri ófrísk eftir tvær jákvæðar prufur og sendi mig svo heim og sagði mér að panta mér tíma í mæðraskoðun um miðjan september, ég kom eiginlega jafn nær úr þessu viðtali eins og þegar ég fór í það og ég trúi því eiginlega ekki enn að ég sé ólétt. En spurninginn er þessi er allt í lagi fyrir mig að halda áfram á Herbalife þó að ég sé ólétt? Mér er meinilla við að þyngjast aftur og vildi helst komast niður í 90 kíló fyrir jól, ég er rosalega feit um allan skrokkinn og mér líður alls ekki vel að vera svona í laginu.

Ég veit að þið læknarnir eru allir á móti Herbalife en því miður þá var þetta eina leiðin fyrir mig að reyna að létta mig því ég er ekki mikið fyrir grænmeti og ávexti og stafar það líklega af því að ég er alin upp í sveit og bý þar enn. Ég er að taka fólinsýru núna en lýsi geti ég ekki tekið, allavega ekki í fljótandi formi. Á ég að taka einhverjar fleiri töflur eða vítamín? Á ég kannski að taka Heilsutvennu? Ég keypti bækling á Heilsugæslustöðinni sem heitir Tekið í taumana, stuðningur og ábendingar fyrir þá sem vilja grennast.
Ég var að spá í hvort ég mætti fara eftir matseðlinum sem er í honum (ef þér finnst að ég ætti að hætta á Herbalife) og hvort það væri nógu mikil næring fyrir mig og barnið, er tildæmis 100 gr. af kjöti nóg? Við hjónin voru að ræða þetta og maðurinn minn sagði mér ætti alveg að vera óhætt að halda áfram á Herbalife og léttast svolítið meira, hann sagði að ef konan væri í góðum holdum þá hefði fóstrið nóg af næringu til að byrja með og ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af að það þjáist af næringarskorti, er þetta rétt ég vil alls ekki fara að rengja hann því að hann á 4 börn fyrir og veit líklega sitthvað um þetta? Svo er eitt annað mér er farið að verða svo oft kalt og fá svona kuldahroll á öllum tímum sólahrings, afhverju heldur þú að það geti stafað? Ég er komin tæpa 2 mánuði á leið. Ég held að það sé komið nóg í bili og vona að ég fái svar sem fyrst.

Svar:

Ég myndi ekki ráðleggja nokkurri manneskju, hvorki barnshafandi eða ekki barnshafandi, að nota Herbalife til að grenna sig. Það gefur auðvitað auga leið að þú grennist til að byrja með ef þú borðar mikið prótein og drekkur mikið vatn en til lengri tíma litið er þetta ekki æskileg leið til að grennast. Mjög mikil próteinneysla setur álag á nýrun og í eðlilegri meðgöngu eru þau þegar undir mikilu álagi. Þótt Herbalife eigi að vera „fullkomin næring“ þá er það einungis samsett úr næringarefnum sem eru búin til á tilraunastofu eða unnin úr öðrum fæðutegundum með ýmsum vinnsluaðferðum. Mannshöndin er búin að grufla í þessu og þótt við vitum ýmislegt um næringarefni þá eru sífellt að finnast ný efni og aukast þekkingin á virkni hinna ýmsu efna í fæðunni, svo ekkert sem mannshöndin býr til getur komið í stað náttúrúlegrar fæðu, hvað þá verið fullkomið. Svo eru í Herbalife ýmis aukaefni eins og bragð- og rotvarnarefni sem geta nú ekki talist beint holl.

Þótt þú þurfir vissulega að léttast er meðgangan ekki æskilegasti tíminn til þess. Það er gott ef þú getur haldið sömu þyngd og þú ert í núna út meðgönguna. Svo eftir að þú ert búin að fæða og barnið er búið að fá góðan tíma á brjóstinu getur þú farið í strangara aðhald í mataræðinu og þá einnig farið í leikfimi, því það er hreyfingin og áreynslan sem skiptir höfuðmáli við að grenna sig. Ástæða þess að betra er að bíða með stranga megrun fram yfir brjóstagjöf er að eiturefni úr umhverfi og fæðu geymast í fituvef líkamans og ef hann brotnar hratt niður leysast þessi efni út í blóðrásina og berast til barnsins. Fylgjan er ágæt síunarstöð fyrir mörg eiturefnanna en þau fara töluvert yfir í brjóstamjólkina. Þess vegna er betra að léttast hægt meðan kona er barnshafandi eða með barn á brjósti.

Matarlistarnir í bæklingnum „Tekið í taumana“ eru ágætir og nægja ykkur báðum til að byrja með. Þegar líður á meðgönguna gætir þú þurft dálítið meira prótein eins og eina skyrskál eða undanrennuglas til viðbótar og gott væri fyrir þig að taka alhliða vítamín eins og heilsutvennu alla meðgönguna. Svo er vitaskuld um að gera að borða nóg af grænmeti og ávöxtum, þú hlýtur að finna eitthvað sem þér finnst gott.

Einnig þarftu að vera dugleg að hreyfa þig, t.d. hjóla eða ganga og synda og fitubrennsla verður líka áhrifaríkari ef maður byggir upp vöðvana t.d. með því að lyfta lóðum. Þú getur fengið æfingaspólur frá ýmsum aðilum t.d. Ágústu Johnson. Það væri heldur ekki úr vegi fyrir þig að tala við næringarráðgjafa, t.d. á Landspítalanum og fá þannig sérsniðnar ráðleggingar fyrir þig og þitt ástand.

Varðandi kuldahrollinn þá getur þetta tengst meðgöngunni, líkt og ógleði, þ.e.a.s. ef þú hefur engin önnur einkenni eins og hita eða verki.

Vona að þetta gangi allt vel hjá þér.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir