Við neyðarútgang með ungabarn?

Spurning:
Góðan daginn, mig langar að spyrja ykkur um það sem varðar flugferðalag með ungabarn. Þannig er að ég á 5 mánaða son sem ég er að fara með erlendis, en ég las grein um að foreldrar með ungabörn mættu aldrei sitja við neyðarútgang af öryggisástæðum (það var einmitt það sem við ætluðum að reyna). Getið þið nokkuð sagt mér hvers vegna það er? Eina sem mér dettur í hug varðandi þetta er að það sé verið að tala um börn sem eru farin að hreyfa sig sjálf og geta fiktað…eða hvað? Með fyrirfram þökk og kveðju,

Svar:
Komdu sæl
 
Börn, fatlaðir og gamalmenni mega aldrei undir neinum kringumstæðum sitja við neyðarútganga vegna öryggis. Ef eitthvað gerist og það þarf að nota útgangana þá verða þeir farþegar sem þar sitja að geta opnað útgangana með okkar hjálp nú eða við að komast að þeim. Þetta eru alþjóðlegar flugreglur og við framfylgjum þeim alltaf. Við pössum líka mjög vel upp á handfarangur við þessa útganga því þar má ekkert vera sem hindrar aðra farþega. Þetta hefur sem sé ekkert með fikt að gera því hurðin er þung og það þarf krafta til að opna hana, heldur fyrst og fremst öryggi farþega og áhafnar.
 
Kveðja,
Steinunn Ragnarsdóttir, flugfreyja