Vítamín – hvað er rétt?

Spurning:
Ég hef verið að spá í ýmislegt varðandi vítamín. Skoðanir manna eru greinilega misjafnar. Geturðu sagt mér af hverju talið er að ráðlagður dagskammtur sé alltaf nóg? Hvað er þá með kjörskammt vítamína, sem er einnig uppgefinn og er oft fimmfaldur ráðlagður dagskammtur? Hvað með þá staðreynd að í dag þrátt fyrir góð ráð góðra manna þá eru flestir sem neyta skyndibita 1–2 á dag? Hvað með andoxunarefni til varnar líkamanum og hvernig vitum við hvenær æskilegt magn er komið? Hver er lámarks þörf líkamans varðandi andoxunarefni og af hverju eru ,,íslenskir sérfræðingar“ svo vissir um að þeir viti betur og geti án ábyrgðar sagt fólki að það þurfi ekki að taka vítamín?
Ég er auðvitað fyrst og fremst að huga að eigin heilsu og minna nánustu. Til að ég taki svör þín marktæk, þarf að sjálfsögðu rökstuðning, en ekki svör almenns eðlis svo sem taktu lýsi og borðaðu holla fæðu. Það er ljóst að þrátt fyrir góðan ásetning fær fólk ekki nægjanlega næringu og vörn út úr daglegri fæðu. Af hverju stangast á ráðleggingar sérfræðinga frá þekktustu háskólum í heimi og síðan íslenskra sérfræðinga?  

Með fyrirframþökk

Svar:
Komdu sæll.
Einhverra hluta vegna telurðu að skoðanir íslenskra sérfræðinga stangist á við ,,ráðleggingar sérfræðinga frá þekktustu háskólum í heimi…”  Þetta er að sjálfsögðu alrangt. Ég tel ekki þörf að rökræða það frekar hér en vil benda þér á heimasíðu Matvæla- og Næringarfræðifélags Bandaríkjanna (American Dietetic Association) www.eat.right.org  en þar er hægt að finna ítarefni yfir hin mörgu svið næringarfræðinnar eins og fæðubótarneyslu. Þú munt sjá að ráðleggingar ,,erlendu sérfræðinganna” eru samhljóma ráðleggingum þeirra íslensku.  

Með kveðju, Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur