Vítamínskortur – hvernig er hann fundinn?

Spurning:

Komdu sæl Ingibjörg.

Fyrirspurn vegna þreytu:

Er hægt að finna út á einfaldan hátt hvaða vítamín mann skortir?

Með kveðju.

Svar:

Sæl.

Upplýsingarnar sem þú gefur eru ekki miklar en hugsanlegt er að þú sért blóðlítil ef þú ert mjög slöpp og þreytt (svimi er líka algengt einkenni). Járnskortur er algengasta orsök blóðleysis meðal kvenna á barneignaaldri, þar sem konur tapa járni úr líkamanum með tíðablóði. Þú ættir að hafa samband við lækninn þinn og láta meta járnbúskapinn í líkamanum (blóðprufa).

Varðandi önnur steinefni og vítamín þá er óalgengara að gerðar séu sérstakar mælingar til að meta hvort um sé að ræða skort.

Ég vil að lokum benda á að það er mjög auðvelt að fullnægja þörfum líkamans fyrir flest öll næringarefni ef borðað er fjölbreytt fæði – kornmat, grænmeti, ávexti, fisk, kjöt, mjólkurvörur (magrar), fitu í hófi – og svo er lýsið mjög mikilvægt til að fá nægjanlegt magn af D-vítamíni.

Kveðja,
Ingibjörg Gunnarsdóttir, matvæla- og næringarfræðingur