Vökvi úr brjósti og eymsli

Spurning:

Sæll.

Fyrir 3-4 dögum fann ég fyrir spennu og eymslum í brjóstunum. Sérstaklega þó eymslum í hægra brjóstinu, þegar ég fór að þreifa á því og kreisti geirvörtuna þá kom hvítur frekar þykkur og klísturkenndur vökvi út úr því, bara eins og mjólk. Ég á 2 börn þannig að ég veit hvað er að hafa barn á brjósti og var spennan og eymslin í brjóstinu eins og ég væri að fá stálma.

Eymslin eru ekki eins mikil í dag en það kemur enn svona vökvi úr því. Enginn vökvi kom úr vinstra brjóstinu, en það brjóst var reyndar alltaf mjólkurminna en hægra brjóstið þegar börnin voru á brjósti. Ég er að taka pillu sem nefnist Gynera og er búin að vera á henni í mörg ár með hléum, núna er ég búin að taka hana samfleytt í 2 ár en yngra barnið mitt er 2 ára.

Blæðingarnar hjá mér hafa alltaf verið reglulegar nema ef um getnað er að ræða því þá hafa þær auðvitað dottið niður. Ég á að byrja á blæðingum í kvöld eða fyrramálið. Afhverju er þetta, getur þetta verið af því ég er að byrja á blæðingum? Hvað ætti ég að gera?

Kveðja.

P.S. mér varð svo brugðið að ég fór og keypti mér þungunarpróf sem reyndist neikvætt en ekki er víst að nokkuð sé að marka það þar sem maður á að gera þau á fyrstu dögum eftir að tíðir falla niður.

Svar:

Sæl.

Það er vökvi í kirtilgöngum brjósta alla ævi eftir að kona hefur haft einu sinni á brjósti. Þessi vökvi kemur bara fram sé brjóstið kreist, nuddað. Því er það alveg eðlilegt. Eymslin sem slík geta haft margar skýringar. Þú þarft að skoða brjóstin reglulega (brjóstaskoðun) og ef þú finnur ekki neitt grunsamlegt, hnúta aða annað getur þú verið róleg. Annars er alltaf einfaldast að fá lækni til að líta á brjóstið sé maður ekki alveg viss, þó lýsing þín hér að ofan hljómi nokkuð sakleysislega.

Gangi þér vel,
Arnar Hauksson dr. med.