Vökvi úr brjóstum?

Spurning:
Góðan dag! Nýlega heyrði ég í fjölmiðlum þar sem verið var að ræða brjóstaskoðun og brjóstamein, að ef glær eða blóðlitur kæmi úr geirvörtum ættu konur að láta skoða brjóstin. En hvað með bláan vökva? Alveg frá því ég var með fyrsta barnið mitt á brjósti, hefur komið vökvi ef brjóstin eru kreist. Síðast þegar ég skoðaði brjóstin kom einhvernvegin blágrár vökvi úr báðum brjóstum. Getur það verið leki frá silikonpúðum eða eitthvað annað og þá hvað?

Svar:
Það er algengt að konur geti kreist vökva úr brjóstum sínum töluvert lengi (1-2 ár) eftir að þær hætta með barn á brjósti. Algengast er að um gulhvítan vökva sé að ræða en hann getur einnig verið grár, gulbrúnn eða glær. Því oftar og meira sem kreist er því lengur heldur þetta áfram því mjaltirnar valda örvun á framleiðslunni. Sértu með sílikonpúða ættir þú alls ekki að kreista brjóstin því það kemur fyrir að svona púðar springa. Yfirleitt finna konur nú fyrir því sem ertingu í brjóstum. Það er því hæpið að þessi vökvi sem þú sérð sé sílikon, enda er púðinn væntanlega bak við brjóstvefinn en ekki inni í kirtilsvæðinu. Til að fá úr því skorið hvort nokkuð óeðlilegt sé þarna á ferð ættir þú að láta lækni, helst sérhæfðan í brjóstum, skoða þetta.

Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir.