Vöðvarýrnun vegna súrefnisskorts á meðgöngu?

Spurning:
Þetta er fyrsta skipti sem ég sendi inn fyrirspurn en hef hugsað um það í einhvern tíma. Málið er að að ég á 18 mánaða frænda sem er enn ekki byrjaður að ganga. Virðist í raun ekki fær um það. Getur gengið meðfram borðum og ef haldið er í hendurnar, en tærnar eru alltaf krepptar sama hvað. Er mjög hraustur að öðru leyti, andlega og líkamlega.
Það var farið með hann nýverið til bæklunarlæknis sem sagði að hann væri með vöðvarýrnun vegna súrefniskorts og jafnvel vanæringu á meðgöngu. Og sendi hann í sjúkraþjálfun, sem hann byrjar von bráðum í. Móðurin var búin að tala við nokkra lækna um þetta og enginn sá neitt athugavert við það hvað hann var máttlaus í fótunum/kálfunum fyrr en hún fór til bæklunarlæknis.
Hvað nákvæmlega er vöðvarýrnun vegna súrefnisskorts og er hægt að bæta það upp eins og hjá honum, þannig að hann gæti gengið? Til að skilja hvað geti verið orsök, er best að byrja á byrjuninni. Móðirin gekk með tvíeggja tvíbura, en annar fór á 8. viku. Henni blæddi aðeins á meðgöngu en hafði gert það áður með önnur börn og ekkert komið fyrir. Var með meðgöngueitrun allan tímann, vegna þess að blóðflokkur hennar var nekativ en hans positiv. Hún þurti hjálp við að byrja fæðinguna hjá öllum börnunum, lyf í æð. 4 börn samtals. Hún var látin ganga allt of lengi með strákinn, send ítrekað heim þegar hún kom á fæðingardeildina vegna þess að samdrættirnir voru ekki nógu sterkir, þrátt fyrir það að hún útskýrði það að hún hafi alltaf þurft hjálp við að fæða, veit ekki heitið nákvæmlega og bað meira segja um keisaraskurð því hún fann að eitthvað var að. En það var ekkert hlustað á hana, ein læknakona neitaði meira að segja að skoða hana, þó hún ítrekaði að hún væri búin að missa legvatnið. Tveim vikum síðar og ítrekað vísað frá. Loks fæddist hann eftir mjög langa bið og allt legvatnið búið að leka í burtu. (Ég var viðstödd). Hann fæddist með naflastrenginn tvisvar um hálsinn. Það var stórt gat á naflastrengnum sem var dökkgrænt á lit, og leit út eins og hann var löngu byrjaður að rotna. Það kom ekkert vatn, aðeins blóð og var þetta frekar þurr fæðing þannig séð. Það sást í rifbeinin á barninu og greinilegt að hann hafði ekki fengið næringu lengi og viðurkenndi læknirinn sem skoðaði hann það, í cirka 2-3 vikur vildi hann meina.
Það var skrítið hljóð sem heyrðist í honum er hann fæddist og spurði móðurin ljósmóðurina hvort hún ætlaði ekki að sjúga úr honum, en það sagði ljósmóðurinn að það væri óþarfi, önnur kom seinna og saug úr honum og var grænt slím sem kom úr honum. Er læknir (sami og sagði að hann hafði ekki fengið næringu) kom og skoðaði hann, spurði hann ljósmóðurina sem hafði sagt að það væri óþarfi að sjúga úr honum hvort hún hafði sogið úr honum, játaði hún strax. Vitandi það að hún hafði neitað en önnur hafði komið og fundist þörf á því. Getur maður treyst svoleiðis fólki? Læknirinn (gamalreyndur og góður læknir) sem skoðaði strákinn hljóp strax með hann á vöku þar sem hann fékk súrefni og kom í ljós að það hafði komið gat við hjartað, veit ekki alveg hvað það kallaðist. Kom vegna álags við fæðingu og hefur gróið að fullu við eins árs aldur að sögn hjartalæknis. Á vökudeild fékk hann fyrirtaks umönnun og mætti kannski að einhverju leyti þakka þeim fyrir það hvað hann var fljótur að jafna sig, þannig séð.
Þetta eru ítarlegar upplýsingar, og nei það hefur ekkert verið kært eða neitt svoleiðis. Það eina sem skiptir máli er að hjálpa stráknum eins vel og hægt er. Að öðru leyti er hann mjög hraustur og fljótur að jafna sig ef hann veikist. Virðist vera fljótur að læra, og vill helst gera allt sjálfur en er lítill í sér er kemur að því að nota fæturnar, virðist ekki geta það og fljótur að þreytast við að standa á fótunum við borð eða annað. En er mjög handsterkur af litlu barni að vera.
Svo er annað mál. Ég sjálf á nú von á fyrsta barni og eftir þessa mjög leiðinlegu reynslu af starfsfólki og fæðingu, er ég mjög óörugg. Hef verið viðstödd nokkrum sinnum og var síðasta sú alversta með stráknum. Hef áhyggjur af því að það verður ekkert hlustað á mann, heldur meðhöndlaður sem einhver móðursjúk. Óttast að geta ekki treyst á ljósmóðurina. Einhver ráð? Ég sjálf er í góðum blóðflokki positive, enga eitrun, sýkingu eða annað. Í raun er aðeins eitt að, ég rifbeinsbrotnaði á 8. viku. Gæti kannski haft einhver áhrif? Þakka fyrirfram fyrir. IMM

Svar:
Sæl.

Það er mjög erfitt að svara þessu bréfi þar sem margt hefur verið í meðgöngu og fæðingu frænku þinnar sem verður ekki svarað fyrir nema að hafa skýrsluna hennar í höndum og vita nákvæmlega öll málsatvik. Bendi ég henni á að tala við ljósmæður og lækna sem önnuðust hana í meðgöngu og fæðingu. Ég skal þó reyna aðeins að svara því sem hægt er.

Fyrsta spurningin þín varðandi vöðvarýrnun vegna súrefnisskorts þá er það þekkt að súrefnisskortur getur í stöku tilvikum valdið stirðleika í liðum og herpingi í vöðvum. Hafi læknarnir ekki greint það hjá stráknum meðan hann var yngri þá getur skýringin verið sú að lítil börn þroskast mishratt og eru stundum ekki farin að ganga við 15 – 16 mánaða aldur án þess að nokkuð sé að. Því hafa læknar ungbarnaverndar sjálfsagt ekkert farið að gera í málum fyrr en drengurinn var kominn út fyrir eðlileg mörk í hreyfiþroska. En fái hann sjúkraþjálfun núna eru miklar líkur á að hann geti gengið eðlilega.

Varðandi mismunandi blóðflokka foreldranna þá kallast það nú ekki meðgöngueitrun og hafi ekki verið mótefnamyndun gegn fóstrinu á meðgöngunni hefur slíkt misræmi ekkert að segja. Hafi verið mótefnamyndun á meðgöngunni hefur væntanlega verið fylgst sérstaklega með konunni og hún send í sónar oftar þannig að vaxtarseinkun fóstursins hefði átt að sjást væri hún til staðar. En eins og fyrr segir þá get ég ekki dæmt um þetta þar sem ég veit ekki alla málavöxtu.

Svona gat á hjarta ungbarna er alls ekki óalgengt og hefur ekki með fæðinguna að gera. Öll börn fæðast með gat milli hólfa sem svo lokast á fyrstu sólarhringum nema hjá sumum börnum, þá tekur það lengri tíma. Sjaldnast skapast nokkur vandamál af svona gati milli hólfa, sé það ekki þeim mun stærra.

Hafi verið lítið eða ekkert legvatn og barnið grindhorað þegar það fæddist bendir það vissulega til þess að fylgjan hafi verið hætt að skila fullum afköstum en hjartsláttarlínurit barnsins hefði átt að sýna ef því hefði liðið eitthvað illa í fæðingunni. Það er ekki óalgengt að börnin kúki aðeins þegar þau fæðast og það getur útskýrt græna litinn á naflastrengnum. Um annað í sambandi við fæðinguna get ég ekki sagt þar sem mig vantar gögn og get því ekki dæmt um hvað gekk á.

Mér finnst hæpið að rifbeinsbrotið þitt komi nokkuð til með að hafa að segja í fæðingunni þinni en þú gætir þó fundið fyrir því þegar legið fer að þrýstast undir bringspalir ef það nær ekki að gróa almennilega fyrir þann tíma.

Besta ráðið til þín til að auðvelda þér meðgönguna og fæðinguna er að þú lesir þér vel til um meðgöngu, fæðingu og ungbörn á meðgöngunni, farir á foreldranámskeið, skrifir óskalista fyrir fæðinguna og ræðir vel við þína ljósmóður í meðgönguverndinni og þá ljósmóður sem þú færð þér til aðstoðar í fæðingu.

Vona að það gangi vel með litla frændann og að þú eigir góða upplifun í þinni fæðingu.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir