Xenical og heilsurækt

Spurning:

Sæl Ágústa.

Ég sá í einu svara þinna að þú mælir ekki með notkun megrunarlyfja. Ég hef verið að nota Xenical í tæpt ár núna og hef tapað 25 kílóum. Ég á enn eftir að létta mig og stefni á að léttast um 10-15 kíló í viðbót.

Þetta hefur gengið mjög vel og ég hef ekki fengið neinar aukaverkanir. Að vísu hef ég passað mig í mataræði jafnhliða því að taka lyfið. Ég viðurkenni þó að ég mætti vera duglegri að hreyfa mig!

Spurningin er bara þessi. Ég kem auðvitað til með að hætta að taka lyfið, þegar ég næ minni kjörþyngd. Hvað þá?? Á ég von á því að bæta öllum þessum kílóum á mig?? Ég hef svo oft heyrt að eftir svona kúra verði fólk kærulaust og endingin verði sú að það fitnar aftur. Er ekki bara málið að fara að hreyfa sig meira…..og hvað er æskilegt að fólk hreyfi sig mikið til að halda kjörþyngd?

Bestu kveðjur.

Svar:

Sæl.

Almennt mæli ég ekki með notkun megrunarlyfja en í einstaka tilfellum geta þau vafalaust hjálpað. Stór þáttur í áhrifum Xenical er einmitt að samhliða notkun þess sé neytt færri hitaeininga. Það er alveg ljóst að við þurfum alltaf að glíma við að ná þessu jafnvægi í neyslu hitaeininga og brennslu. Þegar þú hættir að taka lyfið áttu á hættu á að fitna aftur ef þú ekki gætir þess að borða jafnmikið og þú brennir. Þess vegna skiptir hreyfing svo miklu máli.

Með því að stunda reglulega þjálfun gerum við líkamann að „brennsluvél". Við aukum grunnbrennsluna með þjálfun vöðvanna og brennum auk þess extra hitaeiningum við það að reyna á okkur. Líkurnar á því að við getum haldið okkur í kjörþyngd aukast því til muna ef við hreyfum okkur reglulega. En við þurfum einnig að gæta hófs í neyslu. Ágæt regla er að borða hollt og takmarka fitu og sætindi 80% af tímanum og 20% af tímanum getum við leyft okkur aðeins meira. Ég ráðlegg þér því að byrja að hreyfa þig, helst 30 mínútur á dag eða 60 mín 3-4x í viku. Temdu þér einnig að gæta hófs í neyslu og þá er ég ekki að tala um til skamms tíma heldur héðan í frá. Lykilþáttur í því að halda kjörþyngd stöðugri til lengri tíma er að hafa stjórn á mataræðinu, temja sér hóf.
Gangi þér vel.
Kveðja,
Ágústa Johnson, líkamsræktarþjálfari