Yfirlið við þvaglát?

Spurning:
Góðan dag
Ég er 30 ára karlmaður og síðustu 6 mánuði hefur liðið yfir mig 3 svar sinnum við þvaglát.  Þetta hefur aldrei komið áður og ég hef smá áhyggjur af þessu.  Mig langar að spyrja hvað sé að valda þessu og hvað ég get gert til að koma í veg fyrir þetta?  Ég er að klára háskólanám og veit að ég hef verið undir miklu stressi síðustu 3 ár.  Einnig hvaða sérfræðing þarf ég að fara til til þess að kíkja á þetta?

Svar:
Þetta er vel þekkt fyrirbæri en er fremur sjaldgæft á þínum aldri. Yfirleitt kemur þetta fyrir þegar viðkomandi stendur uppréttur og tæmir fulla þvagblöðru og er algengara að næturlagi. Það sem gerist er í raun það, að blóðþrýstingur lækkar óeðlilega mikið og líkaminn (æðakerfið) nær ekki að svara nægilega fljótt þessum breytingum sem geta orðið við tæmingu þvagblöðrunnar. Yfirleitt er þetta saklaust fyrirbæri, en hægt er að meiða sig ef maður dettur t. d. á gólfið eða á einhverjar skarpar brúnir. Stundum er betra að sitja á salerninu við þvaglát ef þetta er algengt, en oftast er slíkt tímabundið vandamál hjá yngri mönnum. Ef þetta endurtekur sig hvað eftir annað, þá er rétt að láta heimilislækni skoða sig í upphafi.

 
Bestu kveðjur,
 
Valur Þór Marteinsson, þvagfærasérfræðingur