Kampýlóbakter er algeng baktería um allan heim og smitar bæði menn og dýr. Í dýraríkinu er hana einna oftast að finna í fiðurfé. Margar tegundir eru til af bakteríunni en Campylobacter jejuni er langalgengasta orsök sýkinga í mönnum. Aðrar mun sjaldgæfari tegundir eru Campylobacter coli og Campylobacter lari.
Hérlendis greinist á ári hverju fjöldi einstaklinga og er smitið ýmist af innlendum eða erlendum uppruna. Árið 1999 geisaði faraldur hér á landi, sem rekja mátti til kampýlóbakter-mengunar í kjúklingum. Í kjölfar hans hófst mikið átak gegn kampýlóbakter-sýkingum og hefur tilfellum fækkað verulega. Miklum árangri hefur verið náð með auknu hreinlæti við framleiðsluna, auknu eftirliti og frystingu mengaðra kjúklinga. Fækkun sýkinga má auk þess þakka bættri meðferð matvæla í eldhúsum landsmanna. Hópsýkingar af völdum mengaðs vatns hafa einnig komið upp hérlendis.
Meðgöngutími sýkingar, þ.e. tími frá smiti þar til einkenna verður vart, eru 2–4 dagar í flestum tilfellum, en getur verið allt frá 1–7 sólarhringar.
Efnisyfirlit
Smitleiðir
Helsta smitleiðin er með menguðum matvælum, en smit með vatni er líka vel þekkt. Beint smit manna á milli getur átt sér stað, en það er einna algengast við umönnun bleiubarna með kampýlóbaktersýkingu.
Einkenni
Niðurgangur (getur verið blóðugur), ógleði, uppköst, krampakenndir kviðverkir og hiti, sem gengur í flestum tilfellum yfir án meðferðar á 4–5 dögum.
Fylgikvillar
Einstaka sinnum fer bakterían út í blóðið og veldur blóðsýkingu.
Greining
Greining fæst með ræktun bakteríunnar í saursýni og í einstaka tilfelli í blóði, ef um blóðsýkingu er að ræða.
Meðferð
Í flestum tilfellum er meðferð með sýklalyfjum óþörf, en stundum reynist nauðsynlegt að gefa vökva í æð til að bæta upp vökvatap.
Forvarnir
Kampýlóbakter er lögum samkvæmt tilkynningaskyldur sjúkdómur og ber að tilkynna til sóttvarnalæknis. Bóluefni gegn Kampýlóbakter er ekki til.
Góð vinnubrögð í eldhúsinu til að koma í veg fyrir krossmengun úr kjötvörum í aðrar fæðutegundir er besta og áhrifaríkasta forvörnin. Þegar kunnugt er um smit ber að hafa eftirfarandi í huga:
- Góður handþvottur minnkar líkur á að smitið berist í aðra einstaklinga og er afar mikilvægur.
- Forðast ber að framreiða mat fyrir aðra á meðan á veikindum stendur.
- Sýktur einstaklingur er mest smitandi þegar hann er með niðurgang og er því ráðlegt að vera heima meðan einkenni eru til staðar.
- Eigið salerni er æskilegt en ekki nauðsyn.
- Engra eftirræktana er þörf nema sá smitaði starfi við matvælaframleiðslu.
Greinin er fengin af vef Landlæknisembættisins var uppfærð 2.7.2019 og birtist með góðfúslegu leyfi þeirra.
Höfundur greinar
Landlæknir
landlaeknir.is
Allar færslur höfundar