Hvers konar efni sem verka þannig á miðtaugakerfið að menn geta við áframhaldandi töku þeirra um hríð eða til lengdar vanist á að nota þau svo óhæfilega að heilsu þeirra eða heill annarra er stefnt í hættu nefnast ávanaefni. Ef um lyf er að ræða kallast slík efni ávanalyf.
Mörg ávanaefni og ávanalyf geta við langvarandi töku (mismunandi eftir lyfjum) haft slík áhrif á menn að sjúkleg fíkn myndist í efnin, þ.e.a.s. að allt líf og starf þeirra snúist að heita má um það eitt að afla sér þeirra efna eða lyfja (fíkniefna, fíknilyfja) sem um er að ræða. Þannig má segja að fíkn sé eins konar hástig ávanans og því er talað um ávana- og fíknilyf og efni.
Eins og fíkn er framhald eða mögnun ávana er ávani framhald eða mögnun félagslegrar notkunar. Félagsleg notkun ávana- og fíknilyfs eða efnis getur verið tilviljunarkennd notkun eða ráðgerð notkun, svo sem í veislum móttökum eða notkun við vissar (stundum daglegar) athafnir eða sjálfslyfjun gegn streitu, álagi, sjúkdómum eða sjúkdómseinkennum. Trúlega er erfiðast að greina sjálfslyfjun frá notkun á ávanastigi.
Notkun á ávanastigi getur verið erfitt að greina frá notkun á félagslegu stigi og þá ekki síst frá sjálfslyfjun. Notkun á ávanastigi einkennist öðru fremur af notkun „án félagslegs tilefnis“, tíðari notkun og meiri notkun eða neyslu en er á félagslegu stigi. Veigmikil skilmerki á mótum félagslegrar notkunar og notkunar á ávanastigi eru skróp úr vinnu eða skóla og notkun „afréttara“. Á ávanastigi hafa menn nokkra stjórn á neyslunni, en þeir eiga verulega á hættu að fá líffæraskemmdir (mismunandi eftir lyfjum eða efnum) þannig að vinnugeta þeirra minnki og þeir deyi fyrir aldur fram. Á fíknistigi er neysla hins vegar úr böndum svo sem áður greinir og lítill vafi á því að um sjúklegt fyrirbæri er að ræða.
Lyfhrif (verkanir) og eiturhrif (skaðlegar verkanir) flestra ávana- og fíknilyfja eða efna eru þannig vanin að félagsleg notkun þeirra þarf ekki að skaða hlutaðeigandi svo að marktækt sé. Þetta er að sjálfsögðu ein meginforsenda félagslegrar notkunar þeirra. Frá þessu eru þó undantekningar. MDMA (e-tafla) er þannig dæmi um ávana- og fíkniefni þar sem félagsleg notkun jafnvel í eitt sinn eftir töku venjulegra skammta kann að valda dauða. Slík efni eru því sérlega varasöm.
Eftir notkun etanóls (áfengis) er þróunin frá félagslegu stigi yfir á ávana- eða fíknistig tiltölulega hæg (tekur oft mörg ár). Talið er að allt að því 20% þeirra sem byrja neyslu áfengis á félagslegu stigi færist í áranna rás yfir á ávana- eða fíknistig. Þeir nefnast alkóhólistar. Eftir notkun ýmissa annarra ávana- og fíknilyfja eða efna getur þessi þróun hins vegar verið mun hraðari og hlutfallsleg tala fíkinna því verið hærri, t.d. eftir notkun kókaíns eða amfetamíns. Í mynd 5 er sýnt notkunarmynstur etanóls, hins dæmigerða vímugjafa.
Áfengisneysla með timburmönnum (eftirverkunum) eða fráhvarfseinkennum, sem neytandinn læknar með afréttara að morgni eða kvöldi, og skróp úr vinnu vegna drykkju eru einkenni um ávanamyndun, svo sem áður er nefnt. Einstaklingur sem drekkur á ávanastigi drekkur oft svo mikið í einu að hann man illa eða ekki orðna atburði. Þetta er kallað óminni („black-out“). Á ávanastigi getur vinnugeta minnkað og áfengi valdið umtalsverðu tjóni á líffærum og líffærakerfum. Vandamál á vinnustað, á heimili eða í sambúð og fjárhagsvandræði sem rekja má til drykkjunnar eru algeng. Á ávanastigi er þol gegn ýmsum verkunum áfengis oft áberandi.
Áfengisfíkn er tvenns konar: Viðvarandi og tímabundin. Í fyrra tilvikinu er fíknin án meðferðar stöðug en í síðara tilvikinu í „túrum“. Drykkjutúrar byrja oft um helgar. Viðkomandi getur þá ekki hætt eftir helgina, heldur drekkur stöðugt og stjórnlítið í marga daga, vikur eða mánuði, þar til kraftar hans eru á þrotum eða honum tekst að hætta af sjálfsdáðum eða með hjálp.
Þol er fyrirbæri sem felur í sér að verkun (lyfhrif) lyfja þverr með áframhaldandi notkun. Þol er ekki einungis bundið við lyfhrif í miðtaugakerfinu en er mest áberandi þar. Talið er að þol gegn verkun miðtaugakerfislyfja sé svokallað lyfhrifaþol sem rekja megi til aðlögunar í miðtaugakerfinu gegn verkun sameinda hlutaðeigandi lyfja. Það styður þessa ályktun að þol má yfirleitt upphefja með stærri skömmtum af lyfjunum eða með lyfjum sem hafa sams konar lyfhrif. Þol er sömuleiðis vel þekkt eftir efni með verkun á miðtaugakerfið sem ekki teljast lyf.
Þol er greinilega flókið fyrirbæri sem getur átt sér fleiri en eina orsök. Fyrirbærið er einnig flókið vegna þess að þol myndast nánast aldrei gegn öllum verkunum lyfjanna. Þá er og staðreynd að gegn meginverkunum sumra miðtaugakerfislyfja myndast ekki marktækt þol (þar á meðal eru t.d. flest flogaveikilyf).
Fráhvarfseinkenni eru einkenni sem koma fyrir eftir töku lyfs þegar hætt er að gefa lyfið. Þau eru mest áberandi eftir langvarandi töku lyfsins. Fráhvarfseinkennin eru oftast öfug við lyfhrifin og þau má upphefja með viðeigandi skömmtum af lyfinu eða lyfi með sömu lyfhrif, sbr. það sem segir um þol að framan. Fráhvarfseinkenni eru ekki einungis bundin við miðtaugakerfið, fremur en þol, en eru eins og þol mest áberandi eftir lyf með verkun á miðtaugakerfið. Fráhvarfseinkenni eru líkt og þol einnig þekkt eftir töku efna me&e th; verkun á miðtaugakerfið sem ekki teljast lyf.
Þol og fráhvarfseinkenni eru yfirleitt talin vera af sömu rót. Aðlögum að lyfjasameindum í miðtaugakerfinu er leiðir til þolmyndunar felur í sér breytingar sem draga úr lyfhrifum. Þessi aðlögun kemur svo fram í formi fráhvarfseinkenna þegar hætt er að taka lyfin eða efnin og sameindir þeirra hverfa úr líkamanum.
Þol og fráhvarfseinkenni koma vissulega oft fyrir samfara ávana og fíkn í lyf eða efni með verkun á miðtaugakerfið, en fátt bendir þó til að þessi fyrirbæri séu af sömu rót. Þessu til stuðnings má nefna að langoftast vill fólk, sem hefur t.d. fengið morfín í einhvern tíma gegn verkjum og sýnt af sér bæði þol og fráhvarfseinkenni þegar lyfjagjöf er hætt, ekki halda áfram með lyfið ef þess er ekki lengur þörf. Það er jafnframt ljóst að langflestir venjast á morfín (og skyld lyf) án allra tengsla við lækningar. Þeir sem venjast á morfínlyf gera það oftast á götum úti. Forsendur fyrir notkun slíkra lyfja virðast þannig skipta meginmáli um hvort ávani eða fíkn myndist í lyfin eða ekki.
Notuð hafa verið hugtökin „sálræn fráhvarfseinkenni“ og „líkamleg“. Það sem virðist liggja að baki er að ekki sé unnt að mæla „sálræn fráhvarfseinkenni“ en að þau „líkamlegu“ megi mæla. Á síðustu 40 árum eða svo hafa menn smám saman komist upp á lag með að mæla sífellt fleira þannig að „sálræn fráhvarfseinkenni“ hafa verið á hröðu undanhaldi. Þessi skipting á fráhvarfseinkennum í „sálræn“ og „líkamleg“ virðist þannig vera markleysa.
Birt með góðfúslegu leyfi Fræðslumiðstöðvar í fíknivörnum
Höfundur greinar
Fræðslumiðstöð um forvarnir
forvarnir.is
Allar færslur höfundar