Bannsett tóbakið!

Tóbak róm ræmir,
remmu framkvæmir,
tungu vel tæmir,
tár af augum flæmir,
háls með hósta væmir,
heilann fordæmir
og andlit afskræmir.

Þannig kvað Hallgrímur Pétursson fyrir um það bil 350 árum.

Reykingar eru helsta orsök margra sjúkdóma og eitt stærsta heilbrigðisvandamál samtímans. Öll tóbaksnotkun er skaðleg heilsunni og skaðinn eykst því meira sem reykt er fyrr er byrjað. Reykingar eru meginorsök 18-19% dauðsfalla í landinu sem eru 350-380 dauðsföll á ári.

Margt hefur áunnist í baráttu gegn notkun tóbaks á Íslandi undanfarið. Enn reykir þó fjórði hver Íslendingur 15 ára og eldri. Reykingar barna og unglinga fóru að aukast aftur um miðjan níunda áratuginn en talið er að dregið hafi úr þeim á ný.

Konur reykja nú meira en karlar. Í því sambandi hrópa á okkur niðurstöður af samanburði milli Evrópuþjóða á tíðni lungnakrabbameins sem er hvergi algengari meðal kvenna en hér og er ástæða þess rakin til reykinga.

Á síðasta áratug hefur verið gripið til ýmissa ráðstafana í því skyni að hindra tóbaksnotkun, s.s. að banna reykingar á ákveðnum stöðum sölu tóbaks til yngri en 18.

Það er gömul saga og ný að bilið milli þekkingar og hegðunar er breitt. Aðgerðir sem miða að því að draga úr tóbaksnotkun eru m.a.:

  • Forvarnir sem beinast að börnum, ungmennum og fullorðnum.
  • Eftirfylgni við banni á tóbaksauglýsingum.
  • Niðurgreiðsla nikótínlyfja og verðstýring.
  • Aukið aðgengi að meðferðarúrræðum fyrir reykingasjúklinga.
  • Reyklaust umhverfi sem víðast.
  • Aukið eftirlit með sölu á tóbaki til unglinga.
  • Söfnun og úrvinnsla á tóbaksneyslu þjóðarinnar og þjóðfélagshópa.

Hagfræðistofnun metur þjóðfélagslegan kostnað vegna reykinga á Íslandi um 5 milljarða á ári. Sennilega er þetta vanmat. Sambærilegir útreikningar í Bandaríkjunum yfirfærðir á Ísland sýna næstum helmingi hærri tölur.

Stefnt er að því að árið 2010 sé hlutfall reykingafólks undir 15% meðal fólks 18-69 ára og undir 5% meðal barna og unglinga. Þessi markmið fela í sér um helmings lækkun þjóðfélagslegs kostnaðar af reykingum. Munar um minna enn fimm milljarða króna ávinning á ári !

Við getum átt þann draum að svo takist til með þetta þjóðarmein að í lok þessar aldar lifi í landinu kynslóðir sem líti á tóbaksreykingar sem sögulega forneskju rétt eins og við lítum á sullaveiki í dag.

Janúar 2003
Haukur Valdimarsson aðstoðarlandlæknir

 

Höfundur greinar