Beinþynning

Rannsóknir allstaðar í heiminum sýna að of fáir fá ráðlagðan dagskammt af kalki og D-vítamíni. Langvinnur kalkskortur, sem ekki er brugðist við, getur haft alvarlegar afleiðingar, s.s. beinmeyru og beinþynningu.

Bein eru lifandi vefur þar sem fram fer stöðug hringrás uppbyggingar og niðurrifs. Uppbygging beinanna hefst strax á fósturstigi og nær hámarki á þrítugsaldrinum. Æsku- og unglingsár eru þannig mikilvægasti tíminn fyrir vöxt beina, bæði stærð þeirra og styrk. Um það bil helmingur beinþéttninnar byggist upp á þessum árum. Eftir það fara beinin smámsaman að glata  styrkleika sínum. Til þess að tryggja sterk og góð bein er nauðsynlegt að borða mat sem er auðugur af kalki og D-vítamíni og hreyfa sig reglulega. Hreyfing styrkir vöðva og bein og því sterkari sem beinin eru því betur eru þau undirbúin þegar beinþynningin hefst. Hverskyns þjálfun er til góðs og mikilvægara nú sem aldrei fyrr að huga að hæfilegri hreyfingu  þegar bíllinn er þarfasti þjónninn og sjónvarp og tölvur helsti gleðigjafinn.

Það er ekki langt síðan að beinþynning var viðurkennd sem algengur og alvarlegur langvinnur sjúkdómur meðal karla en áður einskorðaðist þekking og umfjöllun um sjúkdóminn við konur. Það er ekki síst hækkandi lífaldur sem hefur leitt til þess að dregið hefur saman með kynjunum hvað varðar brot af völdum beinþynningar. Þetta er umhugsunarefni á Íslandi þar sem lífslíkur karla eru með því hæsta í heimi.

Karlar þurfa þannig að gefa gaum að áhættuþáttum beinþynningar ekki síður en konur. Reykingar, óhófleg áfengisneysla, erfðir, hreyfingarleysi eða lyf eins og barksterar eru dæmi um áhættuþætti beinþynningar.

Fyrirbyggjandi aðgerðir gegn beinþynningu eru ekki síður árangursríkar fyrir karla en konur. Að lifa lífinu á hreyfingu styrkir vöðva og bein og dregur úr hættu á byltum og beinbrotum.

Ráðlagður dagskammtur af D-vítamíni

Karlar og konur 10 – 70 ára 15 µg (600 AE)

Karlar og konur 10-17 ára  og konur á meðgöngu og með barn á brjósti 900 mg

Ráðlagður dagskammtur af Kalki

Karlar og konur 18 ára og eldri 800 mg

Heimildir: Beinvernd.is

Höfundur greinar