Bell’s palsy andlitslömun

Bell’s palsy lömun er sjaldgæft ástand sem veldur skyndilegri lömun á andlitsvöðvum. Andlitslömunin getur komið fram á hvaða aldri sem er. Nákvæm orsök er óþekkt en talið er að lömunin geti komið fram vegna bólgu á taug sem stjórnar vöðvum öðru megin í andliti. Bólgan getur komið til  eftir veirusýkingar af einhverju tagi eins og:

 • Herpes I og II
 • Hlaupabóla (herpes zoster)
 • Einkyrningasótt (Mononucleosis, Epstein-Barr)
 • Cytomegalovírus
 • Inflúensa B
 • Handa- fóta- og munn sjúkdómur (Hand-foot-and-mouth disease (coxsackievirus))
 • Öndunarfærasýkingar af völdum Adenovírus
 • Rauðir hundar (rubella)
 • Hettusótt (mumps virus)

Einkenni

 • Skyndileg lömun að hluta til eða í öllu andliti, öðru megin
 • Erfiðleikar með andlitstjáningu eins og að brosa eða loka augum
 • Slef
 • Verkir á svæðinu í kringum kjálka og/eða kringum eyra, þeim megin sem lömun verður
 • Viðkvæmni fyrir hljóðáreiti
 • Höfuðverkur
 • Minnkað bragðskyn
 • Breytingar á tára- og munnvatnsframleiðslu

Yfirleitt leitt verður lömunin bara öðru megin í andliti en í sjaldgæfum tilfellum veldur Bell´s palsy lömun á taugum báðum megin í andliti.

Áhættuhópar

Bell’s palsy kemur oftar fyrir hjá:

 • Konum á meðgöngu, sérstaklega á þriðja þriðjungi meðgöngunnar og á fyrstu vikum eftir fæðingu
 • Einstaklingum með efri öndunarfærasýkingar, eins og inflúensu eða kvef
 • Einstaklingum með sykursýki

Einnig hjá einstaklingum sem hafa fengið endurtekin köst af Bell´s palsy og hafa þekkta fjölskyldusögu um heilkennið, en slíkt er mjög sjaldgæft.

Horfur

Yfirleitt er lömunin tímabundin og einstaklingar finna fyrir að það byrjar að létta á einkennum innan nokkurra vikna og fullum bata er yfirleitt náð innan 6 mánaða. Lítill hópur heldur þó áfram með einkennin út alla ævina.

Greining

Mikilvægt er að leita sér strax læknisaðstoðar ef maður upplifir lömun af einhverju tagi, því slíkt getur verið af völdum heilablóðfalls en einnig geta ýmsar sýkingar og krabbamein valdið sömu einkennum. Læknisskoðun og einkennamat skera úr um það hvort að um Bell´s palsy sé að ræða.

Meðferð

Flestir sem greinast með Bell´s palsy ná fullum bata með eða án sérstakrar meðferðar. Lömunin er þó oft meðhöndluð með sterum til þess að reyna minnka bólgur í andlitstaugum. Slík meðferð er talin áhrifameiri ef meðferð er hafin sem fyrst eftir að einkenna er vart. Ennfremur er sjúkraþjálfun áhrifamikil til að flýta fyrir bata og draga úr líkum þess að lömunin taki sig upp að nýju.

Heimild: Mayo Clinic: http://www.mayoclinic.org/diseases-conditions/bells-palsy/basics/definition/con-20020529

Greinin birtist fyrst 25.febrúar 2016 en hefur verið uppfærð

Höfundur greinar