Brisið

Brisið er líffæri sem er staðsett í kviðnum fyrir aftan magann í efri hluta kviðarhols. Útlitslega séð er kirtillinn langur og flatur og er um 12-15 sentímetrar að stærð. Hann þjónar mikilvægu hlutverki við að breyta fæðu sem við innbyrðum yfir í orku fyrir frumur líkamans. Brisið er bæði innkirtill og útkirtill. Útkirtilshluti þess þjónar mikilvægum tilgangi við meltingu fæðu og innkirtilshlutinn við stjórnun blóðsykurs.

Við meltingu seytir brisið ákveðum „brissafa” sem kallast ensím, sem hjálpa líkamanum að brjóta niður sykur, fitu og sterkju. Þar myndast um 1 lítri af vökva á sólarhring. Brisið framleiðir einnig hormón sem hjálpa líkamanum við blóðsykurstjórnun, matarlyst, örvun magasýra og segir til um saðningu.

Innkirtilastarfsemi

Innkirtilshluti þess þjónar mikilvægu hlutverki við blóðsykursstjórnun og seytingu ýmissa hormóna. Alfa-frumur mynda hormónið glúkagon og beta-frumur mynda hormónið insúlín, sem eru aðal hormónin þegar kemur að blóðsykursstjórnun.

Alfa-frumurnar hafa nema sem skynja ef blóðsykurinn fellur fyrir neðan ákveðin mörk og seyta þá glúkagon-hormóni í blóðið, sem veldur því að blóðsykurinn hækkar. Insúlín hefur hinsvegar öfuga virkni við glúkagon. Þegar blóðsykurinn hækkar upp yfir ákveðin mörk, seytist insúlín út í blóðið, sem veldur lækkun á blóðþrýstingi.

Útkirtlastarfsemi

Útkirtilshluti þess seytir ákveðnum brissafa og er hlutverk þess að brjóta niður fæðu. Brissafinn er glær vökvi sem inniheldur ensím, vatn og natríumkarbónat. Þessi safi er basískur sem gerir það að verkum að þegar hann mætir súrum magasafanum, jafnast sýrustigið í skeifugörninni og verður hentugt umhverfi fyrir meltingu. Brissafinn brýtur niður sterkju, prótein og fitu í fæðu sem fer í gegnum skeifugörnina.

Brisbólga

Brisbólga er ástand þegar bólga myndast í brisinu. Hún getur verið ýmist bráð eða langvinn. Bráð brisbólga gerist snögglega og getur varað í nokkra daga eða vikur en langvinn brisbólga stendur yfir í lengri tíma.

Einkenni geta meðal annars verið kviðverkir (sem aukast við fæðuinntöku), hiti, ógleði, uppköst, hraður hjartsláttur o.fl.

Orsakir geta meðal annars verið alkólólismi, gallsteinar, aðgerðir á kviðarholi, ákveðin lyf, háar blóðfitur, fjölskyldusaga, briskrabbamein ásamt fleiru. Brisbólga getur valdið verulegum sársauka og í alvarlegum tilfellum getur hún verið lífshættuleg. Sjá meira: https://doktor.is/sjukdomur/brisbolga

Sykursýki

Sykursýki er efnaskiptasjúkdómur sem einkennist af of háum blóðsykri sem stafar annaðhvort af of litlu magni insúlíns eða óeðlilegri virkni insúlíns í blóði. Sykursýki skiptist í sykursýki týpu 1 og týpu 2.

Sykursýki týpa 1 á sér stað þegar beta frumur í brisinu framleiða ekki insúlín. Með þessari týpu sykursýkis ræðst ónæmiskerfi líkamans á beta frumurnar sem framleiða insúlín og með tímanum skemmast þær og brisið hættir að framleiða nægt insúlín til að mæta þörfum líkamans. Án insúlíns fá frumur líkamans ekki orku frá fæðunni.

Sykursýki týpa 2 á sér stað þegar líkaminn byggir upp viðnám við insúlíni. Frumur líkamans eru ófærar um að nýta insúlínið sem framleitt er og byggist það upp í blóðinu.

Briskrabbamein

Krabbamein í brisi er alvarlegur sjúkdómur og batahorfur yfirleitt ekki góðar. Í flestum tilfellum á það upptök sín í þeim hluta briskirtilsins sem myndar meltingarensím. Briskrabbamein er sjaldan greint á fyrstu stigum þess, þegar það er sem viðráðanlegast. Það er vegna þess að einkenni koma oftast ekki fram fyrr en það hefur dreift sér til annarra líffæra. Orsök briskrabbameins er ekki þekkt en þættir á borð við reykingar, langvinn briskirtilsbólga og ákveðnar arfgengar stökkbreytingar á genum eru meðal þekktra áhættuþátta.

Höfundur greinar