Ég er dáin úr ást

Reyndar er ég það ekki, en náði vonandi athygli þinni að lesa áfram, því vissulega snýst þessi grein um dauða og jafnframt ást mína á lífinu og hvernig er hægt að lifa góðu lífi þrátt fyrir allt.

Ég er búin að prófa margt til að vera komin á þann stað sem ég er í dag. Með vottorð uppá að vera reynslubolti í heilbrigðiskerfinu og útskrifuð vonandi fyrir lífstíð. Þá er ég samt svo ótrúlega auðmjúk og ánægð með þjónustuna og umhyggjuna sem ég fékk á sínum tíma. Þakklát fyrir að komast lifandi frá þessu en ekki dauð, svo ég tali hreint út, og birti hér í þessari grein heimilislega gagnrýni um heilbrigðisstefnu stjórnvalda. Mín skoðun er að allir eigi rétt á góðu lífi og lífsgæðum. Til að bæta lífsgæðin þarf fólk oft að leita sér aðstoðar og fá faglegar ráðleggingar. Ég tel að í dag sé þjónustan innan kerfisins ekki boðleg og mitt kalda mat er að við séum á rangri leið með rétt einstaklinga til að lifa góðu lífi. Við sinnum ekki heilbrigðisþjónustu og stöndum ekki við aðgerðaráætlanir eins og við ættum að gera.

Íslensk stjórnvöld hafa gefið út skýrslu um hvað þarf til að efla velferðasamfélagið. Gott dæmi er um gríðarlega umfangsmikla vinnu um aðgerðaráætlun sem ber nafnið „Ísland 2020 – Sókn fyrir atvinnulíf og samfélag“ gefið út 2011 og hafði það að markmiði að Íslendingar séu fremstir meðal annarra þjóða í verðmætasköpun, nýsköpun, atvinnutækifærum, menntun og velferð ásamt lífsgæðum.

Það er því sorgleg þróun þrátt fyrir góðan vilja stjórnvalda á prenti að aðgengi fagaðila sé ekki niðurgreitt og þar með aðgengilegt.

 

Ótímabær dauðsföll eru alvarlegt mál

Flestir langvinnir sjúkdómar valda ótímabundnum dauðsföllum s.s. sykursýki 2 og hjarta- og æðasjúkdómar, offita og krabbamein (sumar tegundir sem tengjast lífsstíl). Það er ísköld staðreynd að þessir sjúkdómar þróast oft vegna heilsuhegðunar einstaklinga, vana og ákvarðana s.s. óhóflegrar neyslu matar og áfengra drykkja, reykinga og kyrrsetu. Þá spyr maður sig, hver ber ábyrgð? Einstaklingurinn? já vissulega, en einnig stjórnvöld.  Málið snýst um aðgengi að þjónustu til að afla sér upplýsingar um heilsu og hvað er best hverju sinni og upplýsingar í formi forvarna eða um hvernig best má lifa með fötlun eða sjúkdómi.

 

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (betur þekkt sem WHO) hefur kallað eftir aðgerðum til að sporna við þeirri þróun að ótímabær dauðsföll tengd lífsstíl séu að verða stærra vandamál en smitsjúkdómar og faraldrar sem geisuðu á öldum áður. Stefna íslenskra stjórnvalda um heilbrigðisþjónustu er bundin í lög og reglugerðir þar sem tekið er fram að hana skuli veita til verndar andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði og að skipulagða heilbrigðisþjónustu skuli ávallt veita á viðeigandi þjónustustigi þar sem heilsugæslan sé fyrsti viðkomustaður sjúklinga.

 

Samanburður á því sem WHO setur fram og svo stefnu íslenskra stjórnvalda veldur óneitanlega smá hiki og hiksta, ef ekki bara undrun á aðgerðum stjórnvalda. Svo virðist vera að í raunheimi ríki ringulreið, pólitísk átök og hagsmunapot stjórnmálaflokka t.d. í formi kosningaloforða. Í rauninni ættu heilbrigðismál aldrei að vera í höndum stjórnmálamanna. Mér finnst það dauðans alvara að þessi mál séu í þeim sorglega farvegi að heilbrigðiskerfið sé ekki nothæft fyrir einstaklinga sem vilja sporna gegn sjúkdómum með möguleika á eftirliti og þjónustu fagaðila sem ætti að vera aðgengilegt á öllum heilsugæslum landsins.

 

Grein mín á alls ekki að vera nein heimsendisspá heldur vil ég hvetja stjórnvöld að nálgast þennan málaflokk eins og ákveðið var með Ottawa sáttmálanum (e. The Ottawa Charter for Health Promotion) á fyrstu heilsuráðstefnu WHO sem var haldin í Ottawa árið 1986. Þar voru settar fram áætlanir til heilsueflingar fyrir allar þjóðir. Til að vinna að heilsueflingu þurfa stjórnvöld að vinna að góðri stefnumótun í heilbrigðismálum og setja fram aðgerðaáætlanir. Það er ekki úr vegi að benda stjórnvöldum á að þetta snýst ekki bara um stærri spítala heldur aðgengi að heilbrigðisþjónustu á öllum stigum og gott er að nota heildræna skilgreiningu á heilbrigði sem leið til að stjórna og bæta heilsu og að skilningur á heilbrigði nái til allra þátta mannlegrar tilveru s.s. líkamlegra, tilfinningalegra, andlegra, samfélagslegra, menningarlegra og umhverfislegra þátta.

 

Mín reynsla er að einstaklingar viti ekki hvert þeir eiga að leita þegar sjúkdómsgreining hefur verið fengin eða meiri meðvitund um að bæta heilsuna. Í mörgum tilfellum er engin heildræn lausn í boði, s.s. næringarráðgjöf, sálfræðimeðferð eða önnur ráðgjöf sem væri ákjósanleg.

 

Með þessari grein þá vil ég kalla eftir aðgengi að ráðgjöfum á öllum stigum heilbrigðis. Fá umræðu um afhverju við höfum ekki næringarfræðinga og ráðgjafa innan sjúkratryggingakerfisins. Heilsugæslan ætti samkvæmt Ottawa sáttmálanum að vera fyrsti og jafnframt besti viðkomustaðurinn til að bæta heilsuna og þar með á ég við alla þætti sem geta fært okkur í átt að bættu lífi. Flestir langvinnir sjúkdómar eru vegna heilsuhegðunar einstaklinga.

 

Eftir að hafa hlustað á og rætt við fagaðila um ástandið, er ljóst að það er slæmt, að einstaklingar hafa ekki nógu gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

Þá er stóra spurningin, af hverju er þetta svona flókið? Gleymdust aðgerðaráætlair fyrri stjórnvalda ofan í skúffum? Er ekki betra að auka aðgengi almennings að fagaðilum og bæta þannig hagkerfið með því að minnka líkur á sjúkdómum og ávinningur að bættum  lífsstíl? Rétturinn til lífsgæða og heilsu er okkar allra og möguleiki til að bæta hana átti að vera aðgengilegur. Ég vil sjá í drögum stjórnvalda að niðurgreiðsla t.d. næringarráðgjafa verði raunverulegt og þar með getum við sparað skýrslugerð um fagurgal og framtíðarsýn. Lífið er núna.

 

Höfundur greinar