Einelti er alvarlegt vandamál og ef grunur kemur upp um slíkt ber að taka mark á því og bregðast við.
Einelti á vinnustað getur komið fyrir á öllum tegundum vinnustaða og hvaða starfsmann sem er óháð menntun og stöðu. Þeir sem valda einelti geta verið samstarfsmenn, yfirmenn og undirmenn. Þetta á líka við þrátt fyrir að út á við hafi vinnustaðurinn á sér gott orð og allt líti vel út á yfirborðinu.
Hvað er einelti?
Einelti á vinnustað er skilgreint sem tíðar og neikvæðar athafnir sem beitt er af einum einstaklingi eða fleiri gegn vinnufélaga sem á erfitt með að verja sig. Þessar athafnir valda þeim einstaklingi sem fyrir þeim verður mikilli vanlíðan og grafa undan sjálfstrausti hans (heimild: vr.is).
Einelti á vinnustað einkennist af röð atvika í stað eins ákveðins atburðar. Eineltið getur því staðið yfir í margar vikur eða mánuði áður en sá sem fyrir því verður áttar sig á því að hann er orðinn fórnarlamb eineltis.
Ábyrgð vinnuveitanda
Afleiðingar eineltis koma fram á ýmsan hátt hjá þeim sem fyrir því verður. Eðli málsins samkvæmt getur slíkur starfsmaður átt erfitt með að uppfylla sínar starfsskyldur og getur lent í vandræðum við að skila sínum verkefnum. Tíðni veikinda getur að sama skapi aukist en því miður er vandamálið oft á tíðum vel falið og engin ytri merki sjást fyrr en í óefni er komið.
Vinnuveitanda ber skylda til þess að sjá til þess starfsumhverfi sé gott bæði hvað varðar tækjakost og félagslegan aðbúnað. Vinnuveitandi á þannig að sjá til þess að einelti, kynferðisleg áreitni og kynbundin áreitni eða ofbeldi á vinnustað sé ekki látin viðgangast. Hann á að gera starfsmönnum ljóst með skýrum hætti að slík hegðun er óheimil.
Vinnueftirlitið hefur gefið út 10 ráð gegn einelti á vinnustað, þau er hægt að fá sem veggspjald bæði á íslensku og ensku og tilvalið að hengja það upp á vinnustaðnum öllum til upplýsinga. Það eykur líkurnar á því að brugðist verði við með viðeigandi hætti komi upp grunur um einelti.
Höfundur greinar
Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur
Allar færslur höfundar