Fáum okkur orkudrykk

Grein eftir Elísabetu Reynisdóttur næringarfræðing hjá Heilsuvernd.

Fyrirspurnir og tímapantanir í síma 510 6500

 

Fáum okkur orkudrykk

Nei, bara að grínast!
Orkudrykkir eru gjarnan markaðsettir sem tilvalin fæðubót til að grípa í þegar við erum orkulítil eða svefnvana, einbeitingin ekki upp á marga fiska eða minnið lélegt. Orkudrykkir eru sérstaklega markaðsettir með það í huga að ná til ungs fólks og einstaklinga sem stunda íþróttir.

Okkur er seld sú hugmynd að orkudrykkir séu tilvaldir fyrir þá sem æfa eða keppa í íþróttum og að neysla þeirra hjálpi til þegar við þurfum að keyra orkuna upp á skjótan hátt. En einn orkudrykkur á dag kemur heilsunni ekki í lag, þó halda mætti annað, eins mikil og neysla orkudrykkja er hérlendis.

Afhverju ætti ég nú að skrifa enn eina greinina um allt það böl sem fylgir því að drekka orkudrykki, þegar allar ábendingar til almennings um skaðsemi þeirra virðast skila nákvæmlega núll árangri?

Staðreyndin er nefnilega sú, að við Íslendingar eigum mögulega heimsmet í sölu og neyslu orkudrykkja og það segir manni hversu móttækileg við erum fyrir markaðsetningu þeirra. Það að skrifa grein sem bendir á skaðsemi orkudrykkja og dregur í efa þær staðhæfingar um gagnsemi þeirra sem fram koma í auglýsingum, er vís til að verða grein sem fær falleinkunn og fá „like“.  En ég skrifa þessa grein ekki aðeins sem næringarfræðingur, heldur einnig sem móðir. Upplýsingarnar sem hér fylgja á eftir hjálpa ykkur vonandi til að taka upplýstar ákvarðanir og ábyrgð á því, hvort eða hversu mikið af orkudrykkjum þið veljið að drekka.

Það er í eðli þeirra sem stunda íþróttir af einhverri alvöru, að vilja sífellt ná lengra og gera betur. Það að drekka orkudrykk sem eykur árangur getur því viðrst ákjósanlegur kostur. Koffein sem finna má í orkudrykkjum, eykur einbeitingu og víkkar út æðar í skamman tíma og eykur streituhormónið í skamman tíma sem þykir auka kraftin t.d. þegar verið er að keppa. Sykurinn í orkudrykkjunum eykur orku, B -vítamín verja líkamann gegn auknu álagi og aminósýrur sem eru í flestum af þessum drykkjum eru valdar sérstaklega með það í huga að auka virkni heila og hjarta. Hinar ýmsu jurtir sem finna má í sumum þessara drykkja  sjá síðan um að auka magn koffeins og virkni þess.

Hljómar eins og frábær blanda af undradrykk og töfrum, ekki satt? Staðreyndin er því miður sú, að það er enginn töfradrykkur til, nema kannski vatnið því án þess getum við hreinlega ekki lifað.

Til að gæta allrar sanngirni mega orkudrykkir þó eiga það, að þeir eru ekki alslæmir. Það að drekka einn og einn orkudrykk af og til er alveg í lagi. Nokkrar rannsóknir hafa sýnt, að íþróttafólk getur mögulega náð betri árangri í erfiðri keppni með því að auka ofantalin efni í líkama sínum. Það er samt mikilvægt að sýna skynsemi og meðvitund um hversu mikið við drekkum af orkudrykkjum og hvenær. Einstaklingar sem eru meðvitaðir um heilsu sína og ætla sér að ná framúrskarandi árangri, komast sjaldnast áfram út á orkudrykkjaþambið eitt og sér, heldur með því að setja sér og fylgja markmiðum, og með því að taka ábyrgð á eigin heilsu, næringu og þjálfun.

Umhverfissjónarmið eru ofarlega á baugi þessa dagana og eitthvað sem við öll þurfum að huga að. Ein leið til þess að bæta kolefnisspor okkar allra er að hætta neyslu þess sem kemur hingað til lands í skipsförmum. Ég sem móðir hvet ungt fólk til að hugsa betur um heilsuna almennt og ekki síður umhverfið. Það á við um alla næringu, hversu mikið við hreyfum okkur og hvort við erum að fá nægjanlegan svefn. Þá skiptir andleg líðan okkar og almennt geðheilbrigði gríðarlegu máli. Þessi þættir þurfa allir að spila vel saman, rétt eins og gítarstrengir, svo úr verði gott lag.

Ef við erum á því að drekka orkudrykki eða koffeindrykki oft og reglulega, er ágætt að spyrja okkur eftirfarandi spurninga:

Er þetta mér nauðsynlegt?

Er ég að drekka orkudrykk/koffíndrykki við þorsta?

Er ég orkulaus?

Er einbeitingin léleg?

Er ég kannski að drekka þessa drykki af því að ég er orðin/n háð/ur þeim?

Oft er neysla okkar á orkudrykkjum ómeðvituð. Um leið og við verðum meðvitaðri og áttum okkur á því hver hún raunverulega er, sjáum við að það er betra að minnka neyslu orkudrykkja og drekka frekar vatn við þorsta. Orkuleysi stafar ekki af skorti á koffeini heldur svefnleysi og næringarskorti. Léleg einbeiting getur síðan verið afleiðing svefnleysis og næringarskorts en þegar við verðum háð koffeini og sykri í leit að skyndilausn verður vandamálið aðeins stærra og meira með aukinni neyslu. Orkudrykkir geta leitt til sjúkdóma eins og efnaskiptasjúkdóma og hjarta- og æðasjúkdóma, og sú staðreynd ætti að vera okkur nógu alvarleg viðvörun.

Lokaorð mín til ykkar eru: takið ábyrgð, haldið neyslu orkudrykkja í lágmarki og veljið frekar vatn sem svaladrykk við þorsta. Ekki láta auglýsingar og markaðsherferðir plata ykkur upp úr skónum, þið eruð klárari en það og það veit ég.

Trúið mér, þið verðið svo miklu kátari og glaðari með því að drekka vatn. Svo munið þið líka sofa aðeins betur með minni neyslu koffeins. Það hvernig okkur líður andlega og líkamlega skiptir svo miklu máli, og þar hafa umhverfisþættir mikið að segja. Ekki drekka of mikið af orkudrykkjum því það hefur áhrif á umhverfið, hvert og eitt okkar viljum og þurfum að hugsa um hvað við getum gert til að minnka kolefnissporin okkar.

Sýnum ábyrgð um leið og við njótum lífsins sem best.

 

Þessi grein birtist í 1 tbl. 38 árgangur 2019 Snæfell (ÚÍÁ).

Höfundur greinar